Hefðu getað valdið dauða með óspektum

Frá Wembley-leikvanginum.
Frá Wembley-leikvanginum. AFP

Samkvæmt rannsókn á því þegar 2.000 manns brutu sér ólöglega leið inn á Wembley-leikvanginn fyrir úrslitaleik EM 2020 í knattspyrnu karla í sumar hefðu miðalausir, fullir og eiturlyfjaðir glæpamenn vel getað valdið dauða með óspektum sínum.

Louise Casey rannsakaði og skrifaði skýrslu um hvað fór úrskeiðis þegar England og Ítalía öttu kappi og sagði allt hafa farið úrskeiðis. Í 17 tilvikum brutu fjöldi fólks sér leið inn um innganga ætlaða fötluðum og neyðarinnganga.

Casey sagði að „skelfilegur vettvangur óreiðu“ hafi leitt til „þjóðarskammar“ þennan dag, 11. júlí síðastliðinn.

Í skýrslu hennar sagði hún að gífurlegur fjöldi hluta hafa farið úrskeiðis þegar kom að undirbúningi fyrir leikinn, þar á meðal þegar kom að gæslufólki sem var margt hvert ekki nægilega reynslumikið, að hluta til vegna kórónuveirufaraldursins. Þá hafi lögreglan mætt of seint á svæðið.

„Liðið okkar, sem er uppfullt af fyrirmyndum, tók þátt í sínum fyrsta stóra úrslitaleik í 55 ár. Fjöldi miðalausra, fullra og eiturlyfjaðra glæpamanna sem ákvað að níðast á saklausu, viðkvæmu og fötluðu fólki, auk lögreglufólks, sjálfboðaliða og starfsfólks Wembley brást þeim hins vegar.

Við erum svo sannarlega heppin að það komu ekki til mun fleiri alvarlegri meiðsli eða þaðan af verra, og verðum að refsa því fólki sem telur að knattspyrnuleikur sé á einhvern hátt afsökun fyrir því að hegða sér svona harkalega.

Það er alveg ljóst að mínu mati að aðal ábyrgðin fyrir því sem fór úrskeiðis á Wembley þennan liggi hjá þeim sem misstu stjórn á eigin hegðan,“ skrifaði Casey meðal annars í skýrslunni.

Alls hefur 51 verið handtekinn í tengslum við óeirðirnar, þar af 26 á leikdag, og stendur rannsókn á málinu enn yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert