Fótbolti

Pochettino með kórónu­veiruna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pochettino er með Covid-19.
Pochettino er með Covid-19. EPA-EFE/YOAN VALAT

Maurico Pochettino, nýráðinn þjálfari Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain, hefur greinst með kórónuveiruna.

Hinn 48 ára gamli Argentínumaður tók við stjórnartaumunum hjá PSG þann 2. janúar. Í aðeins sínum þriðja leik með félagið vann hann sinn fyrsta titil sem þjálfari. Nú örfáum dögum síðar hefur hann greinst með kórónuveiruna.

Í tilkynningu frá Frakklandsmeisturunum kemur fram að aðstoðarmenn þjálfarans, Jesus Pérez og Miguel D‘Agostino, muni stýra liðinu í næstu tveimur leikjum. Hvenær Pochettino snýr aftur til starfa verður að koma í ljós en ef til vill mun hann stýra liðinu heiman frá ef hann er ekki of illa haldinn.

PSG er fjórða liðið sem Pochettino þjálfar en hann lék með félaginu á sínum tíma. Hann byrjaði hjá Espanyol á Spáni, færði sig þaðan til Southampton á Englandi og svo Tottenham Hotspur.

Hann hætti hjá Tottenham árið 2019 og er nú mættur til Parísar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×