„Áfangi sem er mér rosalega mikilvægur“

Orri Freyr Þorkelsson á vaktinni í kvöld ásamt Janusi Daða …
Orri Freyr Þorkelsson á vaktinni í kvöld ásamt Janusi Daða Smársyni (3). Ljósmynd/Szilvia Micheller

Orri Freyr Þorkelsson lék sínar fyrstu mínútur á ferlinum á stórmóti þegar Ísland tapaði fyrir Danmörku 28:24 á EM í handknattleik í Búdapest í kvöld. 

Orri leysti Bjarka Má Elísson af hólmi í vinstra horninu, lék allan leikinn og skoraði 2 mörk. „Þetta var enginn smá andstæðingur að fá í fyrsta leik og ég er ótrúlega stoltur af þessu. Þetta er áfangi í mínu lífi sem er mér rosalega mikilvægur. Þetta var mjög skemmtilegt og vonandi verða landsleikirnir mun fleiri,“ sagði Orri Freyr þegar mbl.is sat fyrir honum í MVM Dome í Búdapest í kvöld. 

Fyrsta mark Orra á stórmóti kom á 10. mínútu leiksins en hann hafði verið á skýrslu í fyrstu þremur leikjunum á EM án þess að koma inn á.

 „Að sjálfsögðu langar mann alltaf að fara inn á en við erum með frábært lið og Bjarki er ótrúlega flottur leikmaður sem hefur spilað mjög vel. Ég tek bara við því hlutverki sem ég fæ í liðinu og reyni að gera eins vel og ég get. Nú spilaði ég en ekki í hinum leikjunum til þessa. Fyrir mig eru ótrúlega mikil forrétindi að vera hérna á mínu fyrsta stórmóti. Ég er mjög þakklátur fyrir það.“

Íslendingar fengu góðan stuðning eins og fyrri daginn þótt Íslendingum …
Íslendingar fengu góðan stuðning eins og fyrri daginn þótt Íslendingum hafi fækkað eitthvað miðað við milliriðilinn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hvernig fannst Orra hann komast frá leiknum? „Það var kannski eitt færi sem ég var ósáttur yfir að hafa klúðrað. Þetta eru auðvitað mjög góðir markmenn hjá Dönum og á heildina litið var ég nokkuð ánægður með mína frammistöðu. Sérstaklega miðað við að þetta var minn fyrsti leikur á stórmóti.“

Orri Freyr drekkur í sig fróðleik frá reyndum mönnum í herbúðum Íslands. „Seinni hlutinn á síðasta ári og upphaf þessa árs hefur verið lærdómsríkur tími. Þetta er fyrsti veturinn hjá mér í atvinnumennsku og svo bætist þetta mót við. Í þessu liði eru ótrúlega flottir íþróttamenn og miklar fyrirmyndir upp til hópa. Maður reynir að læra eins mikið af þessum reyndari og hægt er,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson við mbl.is. 

Orri Freyr Þorkelsson lengst til vinstri.
Orri Freyr Þorkelsson lengst til vinstri. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert