Auðvelt hjá Leicester gegn botnliðinu – markalaust hjá Everton

Jamie Vardy skoraði tvennu í kvöld.
Jamie Vardy skoraði tvennu í kvöld. AFP/Oli Scarff

Leicester City átti ekki í neinum vandræðum með botnlið Norwich City þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld. Á sama tíma gerðu Watford og Everton markalaust jafntefli.

Markalaust var í leikhléi í leik Leicester og Norwich en í þeim síðari opnuðust flóðgáttir.

Jamie Vardy kom Leicester yfir á 54. mínútu með skoti sem fór af varnarmanni og sigldi þaðan yfir Angus Gunn í marki Norwich, sem var seinn að átta sig og hefði átt að gera betur.

Eftir rúmlega klukkutíma leik slapp Vardy í gegn eftir sendingu Harvey Barnes, sem lagði einnig upp fyrra mark hans, og kláraði laglega með skoti upp í nærhornið.

James Maddison innsiglaði svo 3:0-sigur með föstu skoti úr vítateignum eftir að Gunn hafði kýlt fyrirgjöf Kiernan Dewsbury-Hall út.

Everton auðnaðist þá ekki að skora þrátt fyrir að hafa ráðið lögum og lofum gegn Watford þar í borg í kvöld.

Watford er þegar fallið niður í B-deild og Everton stendur í fallbaráttu en er nú tveimur stigum fyrir ofan fallsæti og á leik til góða á Leeds United sem er í 18. og síðasta fallsætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert