Íslenski boltinn

Varamennirnir tryggðu Fram jafntefli í átta marka leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fram sýndi mikinn styrk gegn ÍBV í kvöld.
Fram sýndi mikinn styrk gegn ÍBV í kvöld. vísir/hag

Þrátt fyrir að lenda þrisvar sinnum undir náði Fram jafntefli gegn ÍBV í Lengjudeild karla í kvöld. Lokatölur í Safamýrinni, 4-4.

Aron Snær Ingason skoraði jöfnunarmark Fram í uppbótartíma. Eyjamenn komust í 2-4 í upphafi seinni hálfleiks en Framarar gáfust ekki upp og náðu að jafna.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komust yfir á 12. mínútu með marki Bjarna Ólafs Eiríkssonar. Á 21. mínútu jafnaði Fred Saraiva fyrir heimamenn með frábæru marki.

Tómas Bent Magnússon kom ÍBV aftur yfir á 35. mínútu en Þórir Guðjónsson jafnaði fyrir Fram á lokamínútu fyrri hálfleiks. Staðan 2-2 í hálfleik.

Strax í upphafi seinni hálfleik komust Eyjamenn yfir í þriðja sinn. Að þessu sinni skoraði Felix Örn Friðriksson. Á 52. mínútu kom Gary Martin ÍBV svo í 2-4 með sínu níunda deildarmarki í sumar.

Eftir um klukkutíma leik gerði Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, þrefalda skiptingu og hún blés nýju lífi í heimamenn.

Einn af varamönnunum, Tryggvi Snær Geirsson, minnkaði muninn á 70. mínútu og Framarar héldu áfram að sækja.

Þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Aron Snær, sem kom líka inn á sem varamaður, jöfnunarmark Fram, 4-4.

ÍBV er í 2. sæti Lengjudeildarinnar með nítján stig, einu stigi meira en Fram sem er í 3. sætinu.

 Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×