Stór hópur fólks greindist á landamærunum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundinum í morgun.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundinum í morgun. Ljósmynd/Almannavarnir

Alls greindust átján manns með kórónuveirusmit á landamærunum í gær. Um er að ræða stóran hóp einstaklinga sem var á ferðalagi erlendis en er búsettur hér. Smitrakning kann að leiða til þess að fleiri smit greinist. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna.

Beðið er eftir mótefnamælingu til að sjá hvort smitin eru virk eða gömul. 

„Þetta er óvenjumikið sem greinist á landamærunum,“ sagði hann og bætti við að þetta gefi vísbendingu um að faraldurinn er í vexti erlendis og sýni mikilvægi skimunar á landamærum.

Fleiri sýni voru tekin í gær en daginn áður, eða um 2.700. Hann sagði ánægjulegt að 80% þeirra sem greindust hafi verið í sóttkví við greiningu og að þetta væri hæsta hlutfallið til þessa.

Tveir í öndunarvél 

26 liggja núna á Landspítalanum með Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu. Tveir eru í öndunarvél. Alls hafa 50 manns verið lagðir inn á spítalann með veiruna frá 15. september.

Þórólfur sagðist í dag ætla að skila tillögum til heilbrigðisráðherra um áframhaldandi aðgerðir eftir 19. október. Hann sagðist ekki telja mikið rúm vera fyrir miklar tilslakanir þar sem faraldurinn sé ekki farinn að minnka og bjóst hann við því að tillögurnar miðist við tvær til þrjár vikur eins og áður hefur verið. 

Gengur mun hægar niður 

Þórólfur sagði faraldurinn vera svipaðan og undanfarna daga og að hann fari hvorki upp á við né áberandi niður á við. Sagðist hann telja að faraldurinn muni ganga hægar niður núna en fyrr í vetur. „Við þurfum að fylgjast með tölum á milli daga og sjá hvað gerist.“

Varðandi ástæður þess að hann gengur hægar niður í þessari bylgju sagði hann að í upphafi hafi faraldurinn komið nánast í einni gusu til landsins og að náðst hafi að taka utan um hann miklu fyrr. Núna hafi hann aftur á móti náð að dreifa sér meira í samfélaginu. „Það kann að vera að almennt sé minni samstaða í samfélaginu,“ bætti hann við en kvaðst þó geta fullyrt að mikilli meirihluti fólks fer eftir tilmælunum sem eru í gangi.

Verður með okkur í samfélaginu næstu mánuði

„Við þurfum öll að vera undir það búin að það mun taka nokkurn tíma að ráða niðurlögum þessarar bylgju. Við þurfum að fara að venja okkur við að veiran mun vera með okkur í samfélaginu næstu mánuði eða þangað til við fáum bóluefni,“ sagði hann og telur minni vonir núna um að uppræta veiruna úr samfélaginu heldur en í vor.

Þórólfur sagði best að hafa sem minnst íþyngandi aðgerðir í gangi á hverjum tíma. Gæta þarf vel að einstaklingsbundnum smitvörnum, nálægðarreglunni, fólk þarf að passa sig í fjölmenni og nota grímur þar sem það á við. „Samstaða er besta sýkingarvörnin,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert