Óvissa um framtíð Unaóss

Mikill bruni varð í útihúsum við Unaós í byrjun mánaðar. …
Mikill bruni varð í útihúsum við Unaós í byrjun mánaðar. Margir gripir drápust. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Engin ákvörðun um framtíð Unaóss liggur fyrir að sögn Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna (FSRE). Veðurfar hefur komið í veg fyrir að hreinsun geti átt sér stað.

Í byrjun mars greindi mbl.is frá miklum bruna í útihúsum að Unaósi. Bruninn leiddi til dauða um 260 gripa, fjár og geita, og miklar skemmdir urðu á húsnæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Karli Pétri Jónssyni, upplýsingafulltrúa FSRE, enduðu brunarústirnar og dýrahræin í haughúsi fjárhússins. Þau verða flutt á viðurkenndan móttökustað um leið og unnt er. Það verður gert í samstarfi við umhverfis- og framkvæmdasvið Múlaþings. 

Ekkert tjónamat fyrr en hreinsun er lokið

Karl Pétur segir að ákvörðun um enduruppbyggingu Unaóss liggi ekki fyrir en við það mat skipti verðmat tryggingarfélagsins miklu máli. Tryggingarfélagið getur ekki kannað umfang tjónsins fyrr en búið er að hreinsa svæðið en veðurfar hefur komið í veg fyrir að því ljúki.

Karl Pétur segir að FSRE, fulltrúar landeiganda, leigutakar jarðarinnar, sveitarfélagið og vátryggingafélag muni vinna saman að viðeigandi lausn málsins.

Hann segir að Unaós sé stór og góð hlunnindajörð. Enn séu núverandi leigjendur með gildandi leigusamning og enn séu önnur hús á lóðinni sem eru ósködduð og nothæf. „Á jörðinni stendur gott íbúðarhús, geymsla og stór véla- og verkfærageymsla sem áfram eru nothæf,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert