„Skítur skeður“

Einar Jónsson, þjálfari Fram, fer yfir málin með sínum mönnum …
Einar Jónsson, þjálfari Fram, fer yfir málin með sínum mönnum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er hundsvekktur,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir átta marka tap liðsins, 24:32, gegn Haukum í undanúrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarsins, í Laugardalshöll í kvöld.

„Við vorum ekki nægilega góðir í dag og Haukarnir hittu á miklu betri dag en við. Við réðum ekkert við þá, sama hvar á er litið á vellinum og ég vil því nota tækifærið og óska þeim til hamingju með sæti í úrslitunum.

Þeir settu tóninn strax í upphafi og ég held að við höfum bara skorað eitt mark á fyrstu tíu mínútum leiksins. Það var margt sem var að hjá okkur, vörnin var ekki góð, við fengum engin hraðaupphlaup og við vorum ekki að finna neinar lausnir. Svona er þetta stundum, skítur skeður,“ sagði Einar.

Bitur reynsla

Framarar eru með reynsluminna lið en Haukar og það sýndi sig þegar mest á reyndi í leiknum.

„Þetta er klárlega bitur reynsla en það fer auðvitað eftir því hvernig menn taka þessu tapi. Vonandi fer þetta í reynslubankann hjá leikmönnum liðsins en þetta er fyrst og fremst leiðinlegt. Við ætluðum okkur að vinna þennan bikar en við þurfum að bíða í eitt ár til þess,“ bætti Einar við í samtali við mbl.is.

Kjartan Þór Júlíusson sækir að Haukum í Laugardalshöllinni.
Kjartan Þór Júlíusson sækir að Haukum í Laugardalshöllinni. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert