Ítalir unnu dauðariðilinn – sex marka jafntefli á Englandi

Englendingarnir Bukayo Saka og Mason Mount fagna marki þess síðarnefnda, …
Englendingarnir Bukayo Saka og Mason Mount fagna marki þess síðarnefnda, sem sá fyrrnefndi lagði upp. AFP/Glyn Kirk

Ítalía hafði betur gegn Ungverjalandi, 2:0, í Búdapest í kvöld og vann þar með riðil 3 í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu karla. Í hinum leik riðilsins, sannkallaðs dauðariðils, skildu England og Þýskaland jöfn, 3:3.

Giacomo Raspadori, sóknarmaður Napoli, kom Ítalíu í forystu eftir tæplega hálftíma leik gegn Ungverjalandi og Federico Dimarco, vinstri bakvörður Inter Mílanó, tvöfaldaði forystuna snemma í síðari hálfleik.

Tveggja marka sigur í höfn og hrifsuðu Ítalir um leið efsta sæti riðilsins af Ungverjum. Ítalía er þar með búin að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti á EM 2024, þurfi liðið þess með, og er komið í undanúrslit A-deildar Þjóðadeildarinnar.

Eftir markalausan fyrri hálfleik á Wembley í Lundúnum kom Ilkay Gündogan, miðjumaður Manchester City, Þjóðverjum yfir með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd á Harry Maguire eftir að Jamal Musiala hafði farið afskaplega illa með hann innan vítateigs.

Um miðjan síðari hálfleik tvöfaldaði Kai Havertz sóknarmaður Chelsea forystuna með mögnuðu marki þar sem hann skrúfaði boltann fyrir utan vítateig í stöngina og inn.

Skömmu síðar, á 72. mínútu, minnkaði Luke Shaw muninn fyrir England með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Reece James.

Þremur mínútum síðar jafnaði varamaðurinn Mason Mount metin með glæsilegu skoti rétt innan vítateigs eftir frábæran undirbúning annars varamanns, Bukayos Saka.

Á 83. mínútu skoraði Harry Kane af fádæma öryggi úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir athugun í VAR sem leiddi í ljós að Nico Schlotterbeck braut illa á James.

Fjórum mínútum síðar jafnaði Þýskaland hins vegar metin. Þar var að verki Havertz þegar hann fylgdi eftir skoti Serge Gnabrys af stuttu færi, skoti sem Nick Pope hafði varið klaufalega út í markteiginn.

Jafntefli reyndist því niðurstaðan og er England fallið niður í B-deild Þjóðadeildarinnar eftir að hafa ekki unnið leik í riðlinum.

Rúmenar niður í C-deild

Í riðli 3 í B-deild bjargaði Finnland sér frá falli niður í C-deild með 2:0-sigri á Svartfjallalandi.

Oliver Antman og Benjamin Källman skoruðu mörk Finna í Svartfjallalandi snemma í síðari hálfleik.

Í sama riðli vann Rúmenía öruggan 4:1-sigur á Bosníu, sem var þegar búin að vinna riðilinn og tryggja sig upp í A-deild og umspil B-deildar þurfi liðið þess með.

George Puscas skoraði tvívegis og Dennis Man og Andrei Ratio skoruðu sitt markið hvor fyrir Rúmeníu en Edin Dzeko skoraði mark Bosníu.

Rúmenía er þrátt fyrir tapið fallin niður í C-deild Þjóðadeildarinnar.

Í hinum leik riðilsins vann Búlgaría 1:0-sigur á Norður-Makedóníu þar sem Kiril Despodov skoraði sigurmarkið í upphafi síðari hálfleiks.

Georgía áfram á sigurbraut

Georgía vann sinn fimmta sigur í sex leikjum í riðli 4 í C-deildinni þegar liðið heimsótti Gíbraltar.

Khvicha Kvaratskhelia og Georgiy Tsitaishvili skoruðu mörk Georgíu í 2:1-sigri. Louie Annesley skoraði mark Gíbraltar.

Georgía var þegar búið að tryggja sér sæti í B-deild og Gíbraltar var sömuleiðis þegar fallið niður í D-deild.

Eistland með fullt hús

Eistland vann þá öruggan 4:0-sigur á San Marínó riðli 2 í D-deildinni.

Henri Anier skoraði tvívegis og Rauna Sappinen og Taijo Tenist sitt markið hvor.

Eistland vann riðilinn með fullu húsi stiga og er komið upp í C-deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert