Hefði verið til í betri frammistöðu í dag

Brynjar Björn Gunnarsson
Brynjar Björn Gunnarsson Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var afar svekktur eftir 0:3 tap gegn Víkingum í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld.

„Það er alltaf svekkjandi að tapa. Við töldum okkur geta varist betur, sérstaklega í fyrsta markinu. Svo gefum við þeim annað markið og þá dettum við svolítið niður. Fyrir það mark áttum við góðan kafla þar sem fengum horn og aukaspyrnur og náðum að liggja aðeins á þeim. En fáum því miður annað markið í bakið. Það var kannski ekki uppgjöf hjá mínum mönnum eftir það en nánast samt. Þessi kraftur og orka sem við gáfum í þetta í byrjun seinni hálfleiks hún var ekki til staðar eftir þetta annað mark Víkinga og því fór sem fór. Það var reyndar líka svekkjandi að fá á sig þriðja markið. Við þurftum ekki að gefa þeim það. Markatalan getur skipt máli á lokakaflanum og því óþarfi að fá á sig fleiri mörk. „

Þrátt fyrir þetta tap eruð þið ennþá í tíunda sæti deildarinnar. Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér?

„Á meðan þetta er í okkar höndum þá erum við þokkalega sáttir og þannig er það ennþá. Þetta er alls ekki búið en ég hefði verið til í betri frammistöðu í dag.“

Þetta hefur verið mjög upp og niður hjá ykkur í sumar.

„Það er rétt. Þetta hefur verið mjög upp og niður hjá okkur. Það hefur verið okkar helsta vandamál á þessu tímabili. Við höfum spilað marga leiki mjög vel og oft tapað engu að síður. Við höfum það klárlega í okkur að spila vel og ná góðum úrslitum og það er það sem telur í næstu leikjum. Spila vel og ná í úrslit.“

En nú fer deildin í smá pásu og þið spilið í bikarnum í vikunni. Hvernig verður að gíra liðið í þá baráttu?

„Það er ekkert mál. Það er fínt að fá smá pásu frá deildinni. Það er önnur áskorun og mikil áskorun fyrir okkur sem lið og félag sem HK að fara sem lengst í bikarnum," sagði Brynjar Björn að lokum í samtali við blaðamann mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert