Engar viðmiðunartölur um loftgæði

Hópsmit Covid-19 kom upp á Landakoti í október.
Hópsmit Covid-19 kom upp á Landakoti í október. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rósa Magnúsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir að loftgæði séu könnuð í hefðbundnu eftirliti heilbrigðiseftirlitsins. Það séu þó engin opinber viðmið um loftgæði annars staðar en í byggingarreglugerð sem heilbrigðiseftirlit framfylgir ekki. 

„Þetta er eitt af því sem við skoðum í okkar reglubundna eftirliti almennt og höfum gert í gegnum tíðina,“ segir Rósa í samtali við mbl.is. 

Eins og fram kom í skýrslu um sýk­ing­ar á Landa­koti voru loftræst­ing­a­mál eitt af því sem tald­ist vera í ólagi. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is að haft hafi verið samband við sjúkrastofnanir í landinu og þær beðnar um að gefa þessum málum gaum. Hvað varðar skóla, stofnanir og önnur fyrirtæki sagði Þórólfur að hver og einn verði að huga vel að sínum málum, en að loftræsting skipti mestu máli þar sem viðkvæmir hópar eru. 

Rósa segir að heilbrigðiseftirlitið fylgist með loftgæðum í reglubundnu eftirliti. 

„Við förum oft með loftgæðamæli í skóla og á aðra staði sem við höfum eftirlit með og mælum koltvísýring sem er góður mælikvarði á hvort loftskipti séu í lagi. Ef kvartanir eru um léleg loftgæði könnum við það með síritandi mælum yfir lengri tíma. Það er mjög víða loftræst um glugga og við höfum í gegnum tíðina gefið leiðbeiningar um að lofta reglulega út og gæta að raka og hita sem hefur áhrif á loftgæði. Á Íslandi er þetta mjög algeng leið til að loftræsta húsnæði um opnanlega glugga,“ segir Rósa. 

Sjaldan sem engar athugasemdir eru gerðar 

Engar viðmiðunartölur um loftgæði er þó að finna í þeim reglugerðum sem heilbrigðiseftirlitið starfar eftir. 

„Við höfum engar viðmiðunartölur í okkar reglum sem er bagalegt til að gera kröfur. Það eru til viðmið, við vitum hvað á að miða við þegar við mælum loftgæði og hvaða mörk við viljum sjá þó að það sé ekki niðurnjörvað í okkar reglugerðum,“ segir Rósa. 

Rósa segir að fram fari reglubundið eftirlit með heilbrigðisstofnunum en hver eining sé ekki skoðuð árlega. Á síðasta ári fór fram eftirlit á Landakoti. 

Komu einhverjar athugasemdir fram við það?

„Það koma alltaf athugasemdir í okkar eftirliti og það þarf að lagfæra ýmislegt á svona stórum stöðum eins og Landakot er: slitið gólfefni hér eða svæði sem erfitt er að þrífa þar, þetta geta verið ábendingar sem auðvelt er að bæta úr upp í frávik sem kalla á umfangsmiklar endurbætur. Það er mjög sjaldan sem fyrirtæki eða stofnun er þannig að það eru engar athugasemdir. Það er svo rekstaraðilans að lagfæra það sem gerðar eru athugasemdir við,“ segir Rósa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka