„Í skjóli lögverndaðrar einokunarstöðu“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

Mjólkursamsalan, sem í gær hlaut dóm í Hæstarétti fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu, selur innlendum matvælaframleiðendum mjólkur- og undanrennuduft á miklu hærra verði en hún setur upp ef kaupandinn er erlendur. MS kemst upp með þetta í skjóli lögverndaðrar einokunarstöðu og tollverndar, að því er fram kemur í grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á vef Fréttablaðsins og á vef Félags atvinnurekenda. 

„Mjólkur- og undanrennuduft  er notað í margs konar vörur, m.a. sælgæti, ís, kex og kökur og unnar kjötvörur. Heimsmarkaðsverðið á nýmjólkurdufti er á bilinu 416-429 krónur og á undanrennudufti 326-364 krónur, miðað við tölur frá því seint á síðasta ári. Mjólkursamsalan selur hins vegar öðrum matvælafyrirtækjum nýmjólkurduft á 623 krónur kílóið og undanrennuduft á 608 krónur, miklu hærra verði en heimsmarkaðsverði. Það áhugaverða í málinu er að þetta verð á bara við ef viðskiptavinur MS er íslenskt matvælafyrirtæki. Matvælafyrirtæki í öðrum löndum fá verð sem er nálægt heimsmarkaðsverðinu. Samkvæmt tölum Hagstofunnar seldi MS þannig yfir 500 tonn af undanrennudufti úr landi á síðasta ári á meðalverðinu 333 og 345 krónur á kíló.

Með þessu eru innlend matvælafyrirtæki sett í óþolandi stöðu. Hærri hráefniskostnaður hækkar að sjálfsögðu verðið sem neytendur greiða fyrir vörur þeirra. Erlendir keppinautar þeirra hafa aðgang að hráefni á heimsmarkaðsverði, sem er miklu lægra en verðið sem MS þvingar íslenzku fyrirtækin til að borga. Þetta skekkir samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda á alþjóðlegum markaði og ekki síður á íslenzkum matvælamarkaði. Innlendir matvælaframleiðendur eru í samkeppni við erlenda keppinauta sem geta keypt mjólkurduft af MS á lága verðinu og framleitt úr því vörur sem þeir selja svo til Íslands á lágum eða engum tollum,“ segir í grein Ólafs á vef FA. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert