„Í nótt komu 21 til okkar, 3 hundar, 2 kettir og 2 páfagaukar,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, teymisstjóri hjá Rauða krossinum, spurður í samtali við mbl.is hversu margir Grindvíkingar hefðu leitað til þeirra eftir að gos hófst nærri Grindavík í morgun.
Segir Gylfi að klukkan átta í morgun hafi allir verið komnir í hótelgistingu.
„Þar geta þau verið í 2-3 daga en vinna var hafin í rauninni í gær þegar ljóst var að tæma þyrfti Grindavík annað kvöld. Þá hófst strax sú vinna að fara að huga að því hvernig fólki væri komið fyrir og nú höfum við bara þennan tíma fram til morgundagsins að halda þeirri vinnu áfram og sú vinna mun fara fram í þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í gamla Tollhúsinu.“
Að sögn Gylfa er starfrækt sérstakt áfallateymi í þjónustumiðstöðinni í Tollhúsinu enda megi búast við því að Grindvíkingar séu orðnir þreyttir og undir miklu álagi.
„Það er ekki ólíklegt að það verði álag á Grindvíkingum næstu daga, eðlilega og það hefur náttúrulega verið það undanfarna mánuði, en því lengur sem álag varir á fólki þeim mun erfiðara er að eiga við það ef maður leitar sér ekki aðstoðar.“
Hvetur hann því alla Grindvíkinga til að nýta þá aðstoð sem í boði er.
„Við hvetjum því fólk til að vera í sambandi við okkur og okkar fólk í Tollhúsinu á morgun, telji þeir sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.“
Inntur eftir því hvort komið hafi til tals að opna sérstakt hótel fyrir Grindvíkinga, líkt og gert var á tímum heimsfaraldursins fyrir þá sem þurftu að fara í einangrun, svarar Gylfi því til að í þetta sinn hafi aðrar leiðir verið farnar.
„Við höfum verið að útvega Grindvíkingum skammtímahúsnæði. Það er annað, eins og þegar þurfti að einangra fólk í einhvern tíma, að nýtast við hótelherbergi því núna eru þetta oftar en ekki fjölskyldur sem er kannski erfiðara að vera að taka mörg hótelherbergi undir. Það breytir fjölskyldulífinu töluvert þannig að við höfum verið að nýtast við aðrar lausnir að þessu sinni. Við höfum verið að nýtast við íbúðir, sumarhús og fleira í þeim dúr,“ segir hann og bætir við að nú hafi ríkið komið að þessu með því að kaupa íbúðir í gegnum leigufélögin sín.
„Sú vinna mun eflaust halda áfram úr því sem komið er. Það mun bara skýrast á næstu dögum hvernig við leysum þann vanda sem að við blasir en það er alveg ljóst að það munu allir leggjast á eitt að gera það eins vel og hægt er.“