„Það var svona augnablikið þar sem ég fattaði hversu langt ég hef komist í þessu“

Ljósmynd/Aðsend

Hafþór Hákonarson, 25 ára gamall rafíþróttamaður einnig þekktur sem „Hafficool“ er Overwatch leikmaður hjá rafíþróttaliðinu Böðlar en hann spilar einnig fyrir hönd Íslands í landsliði Overwatch senunnar.

Spilað með erlendum, þekktum rafíþróttaliðum

Hafþór hefur ekki aðeins náð góðum árangri í rafíþróttum á Íslandi heldur hefur hann einnig keppt með liðunum Cloud9 og Envy. Þar segir Hafþór allt hafa verið mikið stærra, liðið hafði umboðsmann og tvo til þrjá þjálfara að staðaldri.

„Það var alltaf mikil pressa að halda sér í góðu formi í leiknum, það var verið að borga okkur fyrir að spila fyrir liðið svo að ef einhver féll aftur úr var honum venjulega skipt út fyrir einhvern annan,“ segir Hafþór og spilaði hann með liðinu sex sinnum í viku í 6-8 klukkustundir á dag. Hann spilaði einnig sjálfur utan liðaæfinga svo Hafþór spilaði leikinn að jafnaði í tíu klukkustundir á dag.

Telur verðlaunafé hvetja fólk 

„Ég held að Ísland sé að gera góða hluti með öllum mótunum eins og Vodafone deildin og Almenni bikarinn. Það eina sem vantar er meiri verðlaunarfé, því það myndi hvetja fólk til að æfa sig meira og leggja sig meira fram, en ég skil að það sé erfitt að redda því. Ég vildi líka að þau lið sem eru góð á Íslandi eins og í League of Legends og Counter Strike að þau myndu æfa sig meira, það er svo oft sem að lið eru sátt með það að vera best á Íslandi þegar þau gætu stefnt hærra og reynt að gera eitthvað í Evrópu,“ segir Hafþór.

Alltaf verið góður í tölvuleikjum

Hafþór hefur alltaf spilað mjög mikið af tölvuleikjum og verið góður í þeim af náttúrunnar hendi. Rafíþróttaferill hans hófst þegar hann var fjórtán ára gamall og ákvað að prófa að taka þátt í mótum með vin sínum í tölvuleiknum Team Fortress 2. Í kjölfarið á því náði hann meiri og meiri árangri í tölvuleiknum en á fjórum árum var hann kominn í rafíþróttalið og vann með liðinu fjóra Evrópumeistaratitla í röð.

Þegar fyrstu persónu skotleikurinn Overwatch kom út ákvað hann að skipta yfir í þann leik, enda var mjög lítil peningur í Team Fortress 2.

„Ég komst í Fnatic frekar snemma eftir að Overwatch kom út svo þetta var ekki orðið svona super „professional“. Við vorum bara með einn þjálfara og þetta var miklu meira bara eins og vinir að leika sér þegar við spiluðum, það var ógeðslega gaman í Fnatic. Ég var nýji gæinn í liðinu en mér leið strax vel að spila með þeim, við fórum saman á fjögur mismunandiu LAN mót í Las Vegas, London, Svíþjóð (Dreamhack) og Suður-Kóreu. Örugglega skemmtilegasti tíminn minn í Overwatch,“ segir Hafþór.

Gagnrýni mikilvæg

Hafþór ráðleggur ungum upprennandi rafíþróttamönnum að vera gagnrýninn á hvernig þú spilar leikinn. Hann myndi hinsvegar aldrei ráðleggja neinum að stefna á að verða atvinnumaður, bara spila ef þér finnst það gaman og kæmi það seinna í ljós að þú sért góður að þá sé tækifæri til þess að skoða atvinnumennsku.

Dýrmætar minningar úr rafíþróttunum

Hann rifjar upp tvær af sínum eftirminnanlegustu minningum úr heimi rafíþrótta, annars vegar þegar hann vann „Heimsmeistaramót“ í Team Fortress 2, þar sem öll bestu liðin úr Evrópu, Ameríku og Ástralíu hittust á móti í Bretlandi og hinsvegar þegar hann keppti í Suður-Kóreu með Fnatic.

„Við vorum að tapa 0-2 í úrslitunum og náðum að komast til baka og vinna 3-2. Það var svo mikilvægt fyrir mig að vinna þetta því þá gat ég hætt í TF2 og farið í Overwatch glaður með að hafa unnið allt sem hægt var að vinna,” segir Hafþór.

„Hin er þegar ég var á móti í Suður Kóreu með Fnatic. Við þurftum að vera þarna í 2 mánuði að lifa þarna. Eftir einn leikinn okkar vorum við leiddir á svæði og það voru hundruði aðdáenda sem vildu eiginhandaráritun frá okkur. Það var svona augnablikið þar sem ég fattaði hversu langt ég hef komist í þessu.“

Hægt er að fylgjast með Hafþóri á Twitch rásinni hans hafficool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert