Bjóða Jóni Daða nýjan samning

Jón Daði Böðvarsson leikur með Bolton.
Jón Daði Böðvarsson leikur með Bolton. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enska knattspyrnufélagið Bolton Wanderers hefur boðið landsliðsmanninum Jóni Daða Böðvarssyni nýjan samning en fyrri samningur hans við félagið rennur út í sumar.

Jón Daði kom til Bolton frá Millwall í janúar 2022 og skoraði sjö mörk í 21 leik fyrir liðið í C-deildinni á seinni hluta tímabilsins.

Í janúar á þessu ári hafði Jón Daði leikið 21 leik í deildinni og skorað þrjú mörk, auk þess að hafa skorað fimm mörk í bikarleikjum, þegar hann meiddist og gat ekki leikið meira á tímabilinu sem nú er að ljúka.

Frá þessu er greint á heimasíðu Bolton sem hafnaði í fimmta sæti deildarinnar í vetur og féll út gegn Barnsley í undanúrslitum umspils um sæti í B-deildinni.

Jón Daði verður 31 árs á fimmtudaginn en hann hefur verið atvinnumaður í rúm tíu ár, frá því hann fór frá Selfossi til Viking í Noregi í ársbyrjun 2013. Hann hefur síðan spilað með Kaiserslautern í Þýskalandi og ensku liðunum Wolves, Reading, Millwall og Bolton. Á ferlinum hefur hann leikið samtals 382 deildaleiki og skorað í þeim 66 mörk. Þá hefur hann skorað fjögur mörk í 64 landsleikjum fyrir Íslands hönd og lék með landsliðinu á EM 2016 og HM 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert