Fótbolti

Benzema sekur í fjár­kúgunar­málinu og fær skil­orðs­bundinn fangelsis­dóm

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karim Benzema og Mathieu Valbuena meðan allt lék í lyndi.
Karim Benzema og Mathieu Valbuena meðan allt lék í lyndi. getty/Ian Walton

Karim Benzema, leikmaður Real Madrid, hefur verið fundinn sekur um að taka þátt í að reyna kúga fé út úr Matieu Valbuena, fyrrverandi samherja sínum í franska landsliðinu, með kynlífsmyndbandi. Benzema fékk eins árs skilorðsbundinn fangelsisdóm og 75 þúsund evra sekt sem nemur rúmlega ellefu milljónum íslenskra króna.

Benzema var einn fimm manna sem mættu fyrir rétt í síðasta mánuði til að svara fyrir aðkomu sína að því að reyna að kúga fé út úr Valbuena með því að birta kynlífsmyndband með honum.

Málið kom upp 2015 og í kjölfarið misstu bæði Valbuena og Benzema sæti sitt í franska landsliðinu.

Í landsliðsferð hvatti Benzema Valbuena til að borga fjárkúgurunum sem hann var milligöngumaður fyrir. Benzema hefur alltaf neitað sök og haldið því fram að hann hafi einungis verið að reyna að hjálpa Valbuena.

Benzema sneri aftur í franska landsliðið fyrir EM í sumar eftir sex ára útlegð. Hann skoraði fjögur mörk á EM og hjálpaði svo Frökkum að vinna Þjóðadeildina í síðasta mánuði.

Valbuena, sem leikur í dag með Olympiacos í Grikklandi, hefur ekki spilað fyrir franska landsliðið síðan fjárkúgunarmálið kom upp 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×