Chelsea og United í viðræðum við Bayern München

Marcel Sabitzer í leik með RB Leipzig.
Marcel Sabitzer í leik með RB Leipzig. AFP

Ensku knattspyrnufélögin Chelsea og Manchester United hafa bæði sett sig í samband við forráðamenn Þýskalandsmeistara Bayern München með það fyrir augum að semja við Austurríkismanninn Marcel Sabitzer.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Sabitzer, sem er 28 ára gamall, hefur ekki átt fast sæti í liði Bæjara það sem af er keppnistímabili.

Miðjumaðurinn gekk til liðs við Bayern frá RB leipzig, sumarið 2021, fyrir 14 milljónir punda, en alls á hann að baki 54 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

Bæði Chelsea og Manchester United eru í leit að miðjumanni en Chelsea hefur verið sterklega orðað við Enzo Fernández undanfarna daga. Þá er Christian Eriksen, leikmaður United, meiddur og verður Daninn frá keppni fram í apríl hið minnsta.

Sabitzer kostar í kringum 20 milljónir punda en hann á að baki 68 A-landsleiki fyrir Austurríki þar sem hann hefur skorað 12 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert