Snýr við dómi héraðsdóms um nauðgun

Landsréttur sýknaði manninn.
Landsréttur sýknaði manninn. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur sýknað karlmann af nauðgun eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafði fundið hann sekan og dæmt til tveggja ára óskilorðsbundinnar fangelsisvistar. Ákæruvaldið krafðist þess að refsing mannsins yrði þyngd.

Karlmaðurinn, sem þá var á þrítugsaldri, var ákærður og fundinn sekur í héraðsdómi um að hafa haft samræði við skólasystur sína án hennar samþykkis og notfært sér að hún hefði ekki getað spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.

Fram kemur í dómi Landsréttar að maðurinn sótti konuna á veitingastað að kvöldi föstudags í janúar árið 2016. Bar þeim saman um að hafa haft samræði á heimili mannsins en nokkru síðar greindi þau á um hvort það hefði verið með hennar samþykki.

Mikil ölvun ósönnuð

Konan bar því við að hún hefði verið mjög ölvuð og við það studdi framburður vitnis, sem var með henni fyrr um kvöldið. Karlmaðurinn sagði að hún hefði aftur á móti verið miðlungs drukkin, eins og segir í dóminum.

Annað vitni bar fyrir dómi að konan hefði verið með fulla rænu, verið virk og vakandi.

Þriðja vitnið sagði að konan hefði verið „vel full“, að ástandið á henni hefði verið „frekar slæmt“ og hún örugglega verið þreytt. Hann taldi hins vegar rangt að hún hefði verið við það að deyja áfengisdauða, eins og segir í dóminum.

Landsréttur metur það svo að ákæruvaldið hafi ekki sannað að konan hafi sökum ölvunar verið í ástandi sem gerði hana ófæra um að sporna við gjörðum annarra.

Ekki upplifað sem nauðgun í fyrstu

Þá bendir rétturinn á að gögn í málinu beri með sér að konan hafi í fyrstu ekki upplifað háttsemi mannsins sem nauðgun.

„Þannig kemur fram bæði í framburði hennar fyrir dómi og í því bréfi sem hún ritaði ákærða að það hafi ekki verið fyrr en hún talaði við B vinkonu sína sem hún hafi áttað sig á því hversu alvarlegt þetta hafi verið,“ segir í dómi réttarins.

„Hún leitaði ekki til neyðarmóttöku og ekki til [...] fyrr en allnokkrum mánuðum síðar. Fyrir dómi kom fram að henni hafi ekki fundist saga sín nógu alvarleg en hún hafi leitað til [...] eftir mikla pressu frá vinum. Kæra var ekki lögð fram fyrr en tæpu einu og hálfu ári eftir að atvik gerðust.“

Ekki að biðjast afsökunar á nauðgun

Í dómi héraðsdóms var lagt til grundvallar að yfirlýsingar mannsins í rafrænum skilaboðum til konunnar og vinkonu hennar yrðu ekki skýrðar á annan hátt en að hann væri að biðjast afsökunar á því að hafa haft samræði við brotaþola þótt hún hafi verið svo ölvuð að hún hafi ekki getað spornað við samræðinu.

„Á þetta verður ekki fallist,“ segir Landsréttur.

„Fyrir dómi margneitaði ákærði því að með skilaboðunum hefði hann verið að játa því að hafa nauðgað brotaþola. Í skilaboðunum baðst hann fyrirgefningar, sagðist vita að háttsemi hans hefði verið röng og að hann hefði gert slæman hlut.

Í skilaboðunum til B tók ákærði hins vegar fram að hann hefði spurt brotaþola þrisvar sinnum hvort hún vildi gera þetta. Þá ritaði hann skilaboð sín til brotaþola vegna bréfs brotaþola þar sem hún tók meðal annars fram að ákærði hefði ekki enn beðist fyrirgefningar og hún væri alvarlega að íhuga að kæra hann.“

Fólu ekki í sér játningu

Landsréttur heldur áfram:

„Eins og bakgrunni þessara samskipta er háttað verður ekki fallist á það með héraðsdómi að skýringar ákærða fyrir dómi á samskiptunum séu ótrúverðugar, en þar bar hann meðal annars að hann hefði viljað biðjast afsökunar á því að brotaþoli hefði upplifað atvik með þeim hætti sem hún gerði.

Alls staðar í kringum hann hefði verið talað um þetta sem nauðgun og honum farið að líða eins og hann hefði gert eitthvað rangt. Þá hafi honum fundist að hann hefði þurft að svara brotaþola og „róa hana niður einhvern veginn“ en hún hafði sem fyrr segir sagst vera að íhuga að kæra hann. Verður ekki talið að fyrrgreind skilaboð ákærða feli í sér játningu sem leitt geti til sakfellingar samkvæmt ákæru.“

Að öllu þessu virtu var ekki talið að ákæruvaldinu hefði gegn eindreginni neitun mannsins tekist að sanna svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Var hann því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu konunnar, sem hljóðaði upp á 2,5 milljónir króna, vísað frá dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert