Körfubolti

„Við værum í stór hættu hér með nötrandi jörð, bullandi eld­gosa­hættu“

Atli Arason skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar. Vísir

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var óánægður með heimsóknina á Reykjanesskaga í kvöld eftir tuttugu stiga tap gegn Keflavík.

„Ég er fúll að hafa tapað. Við vorum að tapa mikið af boltum. Þegar Keflavík skipti yfir í svæði í þriðja þá lentum við í vandræðum og lentum svolítið langt á eftir. Ég er samt ánægður með karakterinn því við komum okkur aftur inn í leikinn en við gerðum aldrei alvöru tilkall til að hrista vel upp í þessu,“ sagði Viðar í viðtali eftir leik.

„Það vantaði aðeins upp á ryþma, við vorum að gera feila og ekki að taka nógu góðar ákvarðanir bæði í vörn og sókn. Við verðum bara að halda áfram að reyna að verða betri, þessi gamla tugga.“

Viðar missti stjórn á skapi sínu í fjórða leikhluta þegar Dino Stipcic fékk sína fimmtu villu og eftir samræður við Davíð Tómas dómara grýtti Viðar töflunni sinni í vegginn.

„Við viljum meina að þetta hafi verið hans fjórða villa en það gæti vel verið að ég hafi talið vitlaust. Ég var bara jafn lélegur eða verri en mínir menn í dag,“ svaraði Viðar aðspurður um bræðiskastið.

Höttur var án stigahæsta leikmanni síns á tímabilinu í dag, Michael Mallory II, en það gæti verið að Mallory verður frá í lengri tíma vegna meiðsla.

„Staðan er ekki góð. Við þurfum að vera tilbúnir að spila án hans eitthvað á næstunni. Við getum ekki verið að spila honum meiddum. Hann er óleikfær eins og er. Það er vonandi að hann komi aftur inn á þessu tímabili hjá okkur.“

Jörð heldur áfram að nötra á Reykjanesskaga eins og undanfarna daga. Þrátt fyrir að eiga annan leik á Reykjanesi eftir þrjá daga þá langar Viðari ekkert að dvelja þar lengur en þarf.

„Við förum heim í fyrramálið. Við værum í stór hættu hér með nötrandi jörð bullandi eldgosahættu. Við reynum að takmarka þetta eins mikið of við getum. Við þurfum að koma aftur á Reykjanesskaga og við komum auðvitað aftur. Við ætlum að vinna í Grindavík á fimmtudaginn,“ sagði Viðar að lokum með smá bros á vör.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×