Sálrænn stuðningur við bændur vegna riðu

Riða hefur komið upp á nokkrum bæjum í Skagafirði í …
Riða hefur komið upp á nokkrum bæjum í Skagafirði í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Samkomulag hefur verið undirritað milli ríkisins, Bændasamtaka Íslands og sveitarfélagsins Skagafjarðar um sálfræðiþjónustu við sauðfjárbændur í Skagafirði þar sem riða greindist.

Í verkefninu felst að heimilisfólki á þeim búum þar sem riðuveiki hefur greinst stendur til boða að nýta sér sálfræðiþjónustu hjá Kristínu Lindu Jónsdóttur sálfræðingi. Ráðgjöfin verður í boði í Skagafirði þegar aðstæður leyfa eða í gegnum fjarfundarbúnað. Auk þess hafa bændur fengið sent fræðslu- og leiðbeiningarefni sem hefur verið tekið saman um áhrif af ytri áföllum á líðan fólks og hagnýt ráð sem hafa reynst vel þegar erfiðleikar og áföll ganga yfir.

Sjónum er sérstaklega beint að viðbrögðum ef riðuveiki greinist í sauðfé. Í fræðsluefninu er auk þess vikið að bjargráðum foreldra vegna upplifunar barna og ungmenna. Kristín verður einnig á opnum upplýsingarfundi sem fyrirhugað er að halda fljótlega þar sem hún mun taka þátt í umræðum og svara spurningum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert