Missir af Liverpool-leiknum í kvöld vegna veirunnar

Raphaël Varane er lykilmaður í vörn Real Madrid.
Raphaël Varane er lykilmaður í vörn Real Madrid. AFP

Skarð er höggvið í vörn Spánarmeistara Real Madrid í fótbolta fyrir leikinn mikilvæga gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu sem fram fer í kvöld.

Real Madrid tilkynnti rétt í þessu að franski miðvörðurinn Raphaël Varane hefði greinst smitaður af kórónuveirunni og yrði fyrir vikið ekki með í leiknum en þetta er fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Varane greindist með veiruna í morgun, að því er fram kemur á heimasíðu spænska félagsins. Real Madrid mætir Barcelona í 1. deildinni á laugardaginn og samkvæmt Marca er ljóst að Varane verður ekki með í þeim leik.

Svipað er orðið ástatt hjá Real Madrid og Liverpool hvað varðar miðverði liðanna. Auk Varane er fyrirliðinn Sergio Ramos úr leik hjá spænska félaginu vegna meiðsla. Hjá Liverpool eru miðverðirnir Virgil van Dijk, Joel Matip og Joe Gomez allir fjarri góðu gamni og hafa verið um talsvert skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert