Íslendingur dæmdur fyrir að ráðast á lögreglumenn

Íslendingurinn sést hér slá annan lögregluþjóninn ítrekað í höfuðið en …
Íslendingurinn sést hér slá annan lögregluþjóninn ítrekað í höfuðið en hinn sést fjær á ganginum. Skjáskot/Myndskeið

Íslenskur karlmaður, sem var ákærður fyrir að ráðast að tveimur lögregluþjónum í Varsjá í Póllandi í haust, hefur verið dæmdur til að greiða samtals þrettán þúsund pólsk slot, sem jafngildir um 450 þúsund íslenskum krónum.

Vísir greinir frá en árásin átti sér stað á lögreglustöð í Varsjá síðasta haust.

Pólska út­varps­stöðin RM­F24 greindi frá því í október að maðurinn hefði veist að lögregluþjónunum er þeir hugðust færa hann til fangaklefa. Hafði maðurinn þá verið handtekinn fyrir skemmdarverk á Bentley-bif­reið við Grzy­bowski-torg.

Hlutu lögregluþjónarnir minni háttar áverka.

Ekki ákærður fyrir skemmdarverk

Héraðsdómur í Varsjá hefur nú dæmt Íslendinginn til að greiða 9 þúsund slota sekt. Þá var honum einnig gert að greiða lögreglumönnunum samtals 4 þúsund slot.

Maðurinn var ekki ákærður fyrir skemmdarverk en pólskir fjölmiðlar hafa fullyrt að hann hafi valdið tjóni sem nemur um tveimur milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert