Guðmundur lifir í núinu

Guðmundur Þ. Guðmundsson og aðstoðarþjálfarinn Gunnar Magnússon hafa þurft að …
Guðmundur Þ. Guðmundsson og aðstoðarþjálfarinn Gunnar Magnússon hafa þurft að bregðast enn hraðar við uppákomum á stórmóti í heimsfaraldri en á stórmótum í venjulegu árferði. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari segist ekki eyða tíma í að velta fyrir sér hvort einhverjir leikmenn sem séu í einangrun  kunni að fá leikheimild gegn Svartfjallalandi á EM í handknattleik á morgun. 

„Ég er eiginlega hættur að spá í því og lifi bara í núinu. Vegna þess að þessar væntingar um að við fáum leikmenn úr einangrun hafa ekki gengið upp til þessa og það bætist bara við listann. Ég er ekki að velta mér of mikið upp úr því. Ég er með þennan hóp í núinu sem ég er með núna en hann gæti verið breyttur á morgun og þá er ég aftur með einhvern hóp í núinu. Það er þannig sem ég hugsa,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is ræddi við hann í Búdapest í dag. 

„Við vorum á fundi og ætlum að gefa allt sem við eigum í þetta. En ég skal alveg játa að þegar ellefu leikmenn eru dottnir út þá er þetta að verða gríðarlega erfitt verkefni.“

Guðmundur líkir leikstíl Svartfjallalands við leikstíl Króatíu. „Hann er ekki ósvipaður og hjá Króötum. Það er alveg hægt að segja það. Þeir eru bara með mjög gott lið. Góðar skyttur, góðan markmann og góða hornamenn. Þetta er sterkt lið og þeir hafa verið að spila mjög vel á köflum.“

Guðmundur hefur um margt að hugsa þessa dagana.
Guðmundur hefur um margt að hugsa þessa dagana. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Spurður um hvort ekki sé heilbrigt og gott fyrir handboltaíþróttina að ný lið eins og Holland og Svartfjallaland séu að hasla sér völl sagði Guðmundur það á vissan hátt hafa verið fyrirsjáanlegt.  

„Þetta er bara þróunin. Ég hef verið að benda á þetta í nokkur ár. Fyrst var svona brosað að mér út af því. Menn héldu alltaf að ég væri eitthvað að tala upp andstæðingana. En þeir sem fylgjast með handbolta vita alveg hvernig þróunin er og það er alveg nóg að horfa bara á leik Króatíu og Svartfjallalands þá átta menn sig á  styrkleikum Svartfjallands. Ef menn efast eitthvað um það,“ sagði Guðmundur ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert