„Þetta var stórhættulegur leikur“ 

Aron Kristjánsson á hliðarlínunni í dag.
Aron Kristjánsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka í handbolta karla, fór með sína menn til Akureyrar í dag til að spila gegn KA í 9. umferð Olís-deildar karla. Leikurinn var þriðji leikur Hauka á sjö dögum og vantaði tvo lykilmenn í lið Arons. Því gat brugðið til beggja vona hjá Haukunum. Eftir mikið hark og spennu þar sem KA virtist ætla að snúa leiknum á lokakaflanum þá náðu Haukar að landa sigri. Þeir skoruðu fjögur síðustu mörk leiksins og unnu 32:29. 

Aron var að vonum ánægður með lyktir leiksins og hafði þetta að segja: 

„Þetta var hörkuleikur og ég er mjög ánægður með að hafa landað tveimur stigum. Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik og vorum með ágætis forskot í honum. Seinni hálfleikurinn varð mjög líkamlegur þar sem mikið var leyft. KA spilaði mjög framarlega og það var meira um spilstopp og minna flæði í okkar sóknarleik. Við stóðumst svo álagið, ég er ánægður með það. Við lentum undir þegar stutt var eftir af leiknum en náðum að klára þennan leik undir pressu.“ 

Þið leidduð 18:14 í hálfleik og KA var við það að jafna 22:22. Það tókst ekki og þið náðuð aftur fjögurra marka forustu. Ykkur tekst ekki að hrista KA af ykkur og þeir komast svo yfir í  fyrsta og eina skiptið þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Stemningin var öll þeirra og það leit jafnvel út fyrir að þeir væru að snúa leiknum á ögurstundu. Þið voruð í leikjum á mánudag og fimmtudag og án Darra og Stefáns Rafns. Þetta var því mjög hættulegur leikur sem hefði getað farið illa. 

„Þetta var stórhættulegur leikur og við vissum að þetta yrði krefjandi og erfitt. Það er alltaf erfitt að koma hingað norður og við höfum lent í hörkuleikjum hérna. Við undirbjuggum okkur undir slíkt og höfðum einmitt í huga að við vorum að spila þriðja leikinn á sjö dögum og örlítið undirmannaðir. Það kemur svo bara maður í manns stað og menn taka á sig aukna ábyrgð. Það var þannig í dag og ég verð að vera ánægður með það.“ 

Þetta var þétt vika hjá ykkur. Eins marks sigur gegn ÍBV á mánudag og jafntefli gegn Val á fimmtudag. Sigur í dag. Fáið þið eitthvað að blása núna? 

„Það er leikur á laugardag í Evrópukeppninni úti í Rúmeníu. Við förum út á fimmtudag og komum heim aðfaranótt mánudags. Svo er deildarleikur gegn FH á miðvikudag og heimaleikurinn gegn Rúmenunum laugardaginn eftir það. Það er því ágæt törn framundan.“ 

Hvernig metur þú möguleika ykkar gegn Rúmenunum? 

„Ég tel okkur eiga ágæta möguleika. Líklega er þetta svona 50/50 einvígi. Þetta er líkamlega sterkt lið hjá þeim og það eru nokkrir útlendingar með þeim. Mér líst vel á þessa rimmu.“ 

Hvað með þá Stefán Rafn og Darra. Þeir voru báðir með í síðasta leik. Voru þeir eitthvað tæpir? 

„Stefán Rafn meiddist í Valsleiknum og við vitum ekki alveg hvenær hann verður klár. Darri er búinn að vera að vesenast með hnéið á sér og við vildum ekki taka neina áhættu með hann. Hann er búinn að meiðast í tvígang hér í KA-heimilinu.“ 

Þú sem þjálfari hans og faðir bannar honum bara að spila aftur í þessu húsi. 

„Nei, nei, alls ekki“ segir Aron skælbrosandi. „Það var bara óskynsamlegt að nota hann fyrst hann var slæmur. Hann hefur því lengri tíma til að jafna sig“ sagði kappinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert