„Nálgun stjórnar KSÍ er bara ekki boðleg“

Úr leik KR og Fylkis í sumar.
Úr leik KR og Fylkis í sumar. Ljósmynd/Sigurður Ragnarsson

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, var í samtali við Valtý Björn Valtýsson í útvarpsþættinum Mín skoðun á Sport FM í hádeginu. Hann var þar að ræða þá ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar KSÍ að vísa frá kæru KR-inga um þá ákvörðun stjórnar KSÍ að hætta keppni á Íslandsmótinu.

„Regluverkið er ákveðinn frumskógur,“ sagði Páll sem telur nálgun úrskurðarnefndarinnar ranga. „Þegar menn setja reglur þá geta þeir auðvitað ekki séð fyrir öllum þeim mögulegu aðstæðum sem upp geta komið, við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því. Reglurnar geta aldrei með tæmandi hætti tekið á þeim vandamálum sem koma upp.

En það er einmitt sú nálgun sem úrskurðarnefndin kýs að taka. Hún telur upp með tæmandi hætti hvaða úrlausnarefni hún getur úrskurðað í og telur sig svo ekki hafa heimild til að endurskoða ákvarðanir stjórnar sambandsins. Þar erum við algjörlega ósammála.“

Stjórn KSÍ krafðist þess að málinu yrði vísað frá á grundvelli þess að stjórnin fari með æðsta vald í málefnum sambandsins og að lög KSÍ veiti aga- og úrskurðarnefndinni ekki heimild til að ógilda ákvarðanir hennar.

„Þessi nálgun stjórnar KSÍ er döpur, að neita okkur um efnislega umfjöllun. Að stjórn KSÍ hafi lagt málið upp með þessum hætti, að krefjast frávísunar, er bara ekki boðlegt.“ sagði Páll enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka