„Ólíðandi“ að annarra leiða hafi ekki verið leitað

Hjúkrunarfræðinemarnir leggja margir stund á starfsnám á Landspítala en þar …
Hjúkrunarfræðinemarnir leggja margir stund á starfsnám á Landspítala en þar ríkir neyðarástand. Einnig vinna margir þeirra á spítalanum. mbl.is/Eggert

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) telja ólíðandi að ekki hafi verið leitað annarra leiða til námsmats í ljósi aðstæðna, í tilfelli hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands sem gert er að mæta á prófstað í dag til að þreyta próf þrátt fyrir að neyðarástand sé í gildi á Landspítala þar sem nemarnir starfa margir. 

LÍS hafa áður biðlað til skipuleggjenda náms að leita allra leiða til að gera nemendum kleift að stunda námið alfarið heiman frá kjósi þeir það.

„Borið hefur á því að stúdentum sé skylt að mæta á prófstað, sem þeim þykir eðlilega óþægilegt í ljósi þess að yfirvöld hafa biðlað til fólks að halda sig heima. Eini möguleikinn fyrir þá sem geta ekki eða treysta sér ekki til þess að mæta er að sækja um að taka sjúkrapróf seinna í haust. Háskóli íslands hefur fellt niður kröfu um læknisvottorð til þess að fá að taka sjúkrapróf, nóg er að láta vita í pósti ef einstaklingur kemst ekki í próf vegna einangrunar eða sóttkví. En að mati LÍS er hér aðeins verið að velta vandamálinu á undan okkur,“ segir í yfirlýsingu LÍS.

„Það hefur verið krafa LÍS frá byrjun faraldursins að fjarnám verði í boði fyrir öll sem kjósa, en að reyna skuli að halda staðnám á þeim námsleiðum sem erfitt er að aðlaga að fjarnámi. Krafan um að boðið sé upp á staðnám er auðvitað háð því að gætt sé að sóttvörnum eftir tilmælum sóttvarnalæknis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert