Sá sigursælasti án félags

Daniel Alves leiddi Brasilíu til ólympíugulls á Ólympíuleikunum í Tókýó …
Daniel Alves leiddi Brasilíu til ólympíugulls á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. AFP

Daniel Alves, sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar, er í leit að nýju félagi eftir að hafa yfirgefið Sao Paulo vegna vangoldinna launa.

Alves, sem hefur unnið til 43 titla á mögnuðum ferli, gekk til liðs við Sao Paulo í Brasilíu árið 2019 og sagði þá að draumur væri að rætast þar sem hann og faðir hans hefðu ætíð stutt félagið.

Nú er sá draumur hins vegar úti eftir deilu við félagið um vangoldin laun. Sao Paulo skuldar Alves tæplega 2,5 milljónir punda.

Umboðsmaður Alves lét forsvarsmenn Sao Paulo vita að hann myndi ekki snúa aftur til félagsins eftir að hafa unnið ólympíugull í sumar nema það greiddi honum launin sem hann á inni.

Hernán Crespo, þjálfari Sao Paulo, gaf það hins vegar út að félaginu væri ekki stætt á því, það hefði einfaldlega ekki efni á því að greiða há laun Alves og þar með er samstarfinu lokið.

Alves er orðinn 38 ára gamall en er þrátt fyrir það enn í fullu fjöri og er búist við því að hann muni halda knattspyrnuiðkun áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert