Þurfi bráðabirgðalausn fyrir næsta vetur

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar
Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar Ljósmynd/Aðsend

„Við lýsum yfir þungum áhyggjum yfir þessari grafalvarlegu stöðu sem uppi hefur verið í lengri tíma, í öryggismálum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs,“ segir Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar.

Bald­ur var á reki um 300 metra frá landi í rúm­ar fimm klukku­stund­ir á laugardaginn, vegna bil­un­ar en ferj­an hef­ur ít­rekað bilað á síðustu árum. Stefnt er að því að Herjólfur III taki við siglingum af Baldri haustið 2023.

Jakob hefur áhyggjur af því að Baldur sé ekki nægilega öruggt skip til að fara í gegnum annan vetur. „Ef það verður raunin, þá þyrfti einfaldlega að vera hér skip í Stykkishólmi, einhvers konar dráttarskip eða viðbúnaður, til staðar til að bregðast við ef bilanir koma upp í Baldri næsta vetur.“

Skipið þurfi að hafa tvær vélar

Þá segir Jakob að fyrst og fremst þurfi skip, sem eigi að þjóna hagsmunum svæðisins, að hafa tvær vélar. Hann segir öll önnur skip frá 1956 sem hafa gegnt þessu hlutverk hafi verið með tvær vélar, nema skipið sem nú siglir.   

„Þarna sérðu hversu mikil áhersla hefur verið lögð á það í gegnum tíðina að hafa tvær vélar, einmitt vegna þess hversu hættulegt er að sigla á þessu svæði,“ bætir hann við.

Ferjan Baldur var á reki í fimm klukkustundir á laugardaginn.
Ferjan Baldur var á reki í fimm klukkustundir á laugardaginn. mbl.is/Einar Falur

Jakob segir það hafa tekið alltof langan tíma að finna aðra lausn. Bæjarstjórnin hafi bent á það í mars 2021, eftir að Baldur varð vélarvana, að það þyrfti annað skip strax og sömuleiðis þyrfti að breyta hafnarmannvirkjum. Núna séu liðnir 15 mánuðir og framkvæmdir enn ekki hafnar. Hann segir það fyrst og fremst skrifast á stefnuleysi í innviðaráðuneytinu.

Innviðaráðherra þurfi að sýna fyrirhyggju

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði í samtali við mbl.is í fyrradag að framkvæmdir á hafnarmannvirkjum hæfust í haust og kláruðust á næsta ári.

„Innviðaráðherra þarf tafarlaust að sýna fyrirhyggju af festu og tryggja bráðabirgðalausn og þá helst fyrir næsta vetur," segir Jakob. Hann bætir við að fela þurfi Vegagerðinni að finna nýju ferju og breyta hafnarmannvirkjum til bráðabirgða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka