Bandaríkjamennirnir David Card, Joshua D. Angrist og Guido W. Imbens eru handhafar Nóbelsverðlaunanna í hagfræði í ár.

Card fær verðlaunin fyrir framlag sitt á sviði vinnumarkaðshagfræði en Angrist og Imbens fyrir framlag sitt til rannsókna og kenninga um orsakasamhengi innan hagfræðinnar.

Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1969. Alls hafa 89 einstaklingar fengið verðlaunin í hagfræði en þar af eru 60 bandarískir. Þá hafa tvær konur unnið verðlaunin en 87 karlar.

Verðlaunin í hagfræði eru ekki hluti af hinum upprunalegu Nóbelsverðlaunum sem Alfred Nobel gat um í erfðaskrá sinni. Seðlabanki Svíþjóðar átti hvað stærstan þátt í að verðlaununum var komið á fót. Enda heita verðlaunin í reynd Verðlaun sænska seðlabankans í hagfræði til minningar um Alfred Nobel.

Á síðasta ári voru verðlaunin veitt bandarísku hagfræðingunum Paul Milgrom og Robert Wilson fyrir uppboðskenningar sínar.