Annie Mist tryggði sér sæti á heimsleikunum

Annie Mist Þórisdóttir mun taka þátt á heimsleikunum í CrossFit.
Annie Mist Þórisdóttir mun taka þátt á heimsleikunum í CrossFit.

Annie Mist Þórisdóttir lenti í 2. sæti á sterku undanúrslitamóti fyrir heimsleikana í CrossFit sem haldið var í Berlín og tryggði sér þar með sæti á heimsleikunum.

Ellefu efstu keppendurnir í kvennaflokki tryggðu sér sæti á heimsleikunum. Þetta verður í tólfta skipti sem Annie Mist verður með á heimsleikum CrossFit en hún hefur unnið leikana tvisvar sinnum.

„Ég elska að æfa en verð alltaf mjög stressuð þegar kemur að keppni. En um leið og ég heyri í fólkinu mínu í stúkunni breytist allt. Ég heyri í ykkur og finn þá fyrir miklu þakklæti yfir því að ég fái tækifæri til þess að upplifa þetta,“ sagði Annie Mist í viðtali eftir mótið í dag.

Annie segist ekki skilja hvernig hún geti ennþá verið svona góð í CrossFit.

„Ég skil í fullri hreinskilni ekki hvernig ég er enn að taka þátt í CrossFit á þessu gæðastigi. Ég hélt í upphafi að ferill minn myndi aðeins endast í þrjú til fjögur ár en ég hef alltaf bara tekið eitt ár í einu og einhvern veginn er ég enn hérna.“

Þá segist hún leggja svona mikið á sig fyrir fjölskyldu sína, sér í lagi unga dóttur sína.

„Ég vil reyna að brjóta niður þá múra, setta af öðrum, þess efnið að okkar tími sé liðinn á einhverjum ákveðnum tímapunkti. Það er undir okkur sjálfum komið að taka þá ákvörðun,“ sagði Annie Mist að lokum.

Þuríður Erla Helgadóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Sólveig Sigurðardóttir komust því miður ekki inn á heimsleikana að þessu sinni.

Seinna í dag kemur það í ljós hvort Björgvin Karl Guðmundsson komist á heimsleikana í CrossFit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert