Peres sá við pótintátum

Sergio Perez á æfinguni í morgun.
Sergio Perez á æfinguni í morgun. AFP

Sergio Perez hjá Racing Point ók manna hraðast á fyrstu æfingu kappakstursins sem fram fer í Steyrufjöllum í Austurríki um helgina. Skaut hann Max Verstappen á Red Bull og báðum ökumönnum Mercedes ref fyrir rass.

Svo jafnir voru annars tímar ökumannanna á æfingunni, að einungis um sekúnda skildi fyrsta og fimmtánda mann að. Perez var að lokum 0,1 sekúndu fljótari í förum en Verstappe.

Perez missti naumlega af sæti á verðlaunapalli Austurríkiskappakstursins en hefur nú náð góðum takti í bílinn og ætlar sér á pallinn, nú viku seinna.

Valtteri Bottas setti þriðja besta hringinn og Lewis Hamilton þann fjórða besta en hann drottnaði á öllum þremur æfingum í síðustu viku.

Lance Stroll, liðsfélagi Perez, átti fimmta besta hringinn en í sætum sex til tíu urðu: Alexander Albon á Red Bull, Carlos Sainz á McLaren, Pierre Gasly á Alpha Tauri, Daniel Ricciardo á Renault og Sebastian Vettel á Ferrari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert