Menningarstyrkur Jóhannesar Nordal veittur í ellefta sinn

Fyrrverandi seðlabankastjórarnir tveir, þeir Davíð Oddsson og Jóhannes Nordal, þekkja …
Fyrrverandi seðlabankastjórarnir tveir, þeir Davíð Oddsson og Jóhannes Nordal, þekkja bæði til menningar og hagspeki. Vel fór á með þeim í gær við afhendingu menningarstyrks sem kenndur er við Jóhannes. Árni Sæberg

Þau Alexandra Chernyshova, Bragi Halldórsson, Pamela De Sensi og Sigurþór Sigurðsson hlutu menningarstyrkinn sem kenndur er við Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, við hátíðlega athöfn í Seðlabankahúsinu í gær.

Er þetta í ellefta sinn sem styrkurinn er veittur.

Menningarstyrkurinn styður viðleitni einstaklinga og hópa að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf. 

Stryktarþegarnir frá vinstri: Sigurþór Sigurðsson, Bragi Halldórsson, Pamela De Sensi, …
Stryktarþegarnir frá vinstri: Sigurþór Sigurðsson, Bragi Halldórsson, Pamela De Sensi, Guðrún Ásmundsdóttir og Alexandra Chernyshova. mbl.is/Árni Sæberg

Sextán umsækjendur

Úthlutunarnefnd valdi þær umsóknir sem hlutu styrkinn í ár en alls bárust sextán umsóknir.

Formaður úthlutunarnefndar er Hildur Traustadóttir, fulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands, en aðrir í nefndinni eru Jón Þ. Sigurgeirsson, efnahagsráðgjafi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þau fjögur verkefni sem valin voru í ár hljóta öll einnar milljónar króna styrk.

Jóhannes Nordal, sem er 98 ára að aldri, segist vera mjög ánægður með verkefnin sem valin voru og að viðfangsefnin séu skemmtileg.

Jóhannes ásamt yngsta langafabarni sínu, Ólöfu Jóhannesdóttur.
Jóhannes ásamt yngsta langafabarni sínu, Ólöfu Jóhannesdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, kynnti verkefnin sem hlutu styrk.

Gefa út sálmabækur

Bragi Halldórsson tók á móti styrknum fyrir verkefnið Sálmabækur 16. aldar en Bragi er í forsvari fyrir vinnuhóp sem vinnur að verkefninu. Aðrir í hópnum eru Jón Torfason, Kristján Eiríksson, Karl Sigurbjörnsson, Elín Gunnlaugsdóttir og Guðrún Laufey Guðmundsdóttir. 

Verkefnið snýr að því að gefa út sálmabækur Marteins Einarssonar og Gísla Jónssonar Skálholtsbiskupa og sálmabók Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups. Með útgáfu þessara þriggja sálmabóka verða allir prentaðir sálmar merkra tímamóta í bókmennta- og kirkjusögu landsins aðgengilegir almenningi.

„Bækurnar eru mikilvægt framlag í menningar-, bókmenntar-, kirkju- og tónlistarsögunni,“ segir Bragi í samtali við Morgunblaðið.

Menningarstyrkurinn var veittur við hátíðlega athöfn í Seðlabankahúsinu í gær.
Menningarstyrkurinn var veittur við hátíðlega athöfn í Seðlabankahúsinu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Í samstarfi með úkraínskri hljómsveit

Hin úkraínska Alexandra Chernyshova, sem hefur verið búsett hérlendis í um 20 ár, tók á móti styrknum fyrir Dream Voices ehf. sem stendur að verkefninu Skáldið og biskupsdóttirin 2022.

Um er að ræða hljóðupptöku af óperunni Skáldið og biskupsdóttirin sem fjallar um vináttu Hallgríms Pétursson skálds og Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskupsdóttur. 

Alexandra er höfundur tónlistar, höfundur handrits er Guðrún Ásmundsdóttir og ljóð eru eftir Rúnar Kristjánsson, Hallgrím Pétursson, Brynjólf Sveinsson, Guðnýju frá Klömbrum og Daða Halldórsson. Verkefnið er unnið í samstarfi við hljómsveitina Gosorquestra frá Kænugarði, höfuðborgar Úkraínu, en hljómsveitarupptaka fór fram í Kænugarði í janúar þessa árs.

Hljóðupptökum verður haldið áfram á þessu ári.

„Ég er mjög þakklát fyrir þennan styrk til að geta klárað hljóðupptökuna. Án hans væri þetta ekki hægt,“ segir Alexandra í samtali við Morgunblaðið.

Jóhannes Nordal ásamt dóttur sinni Guðrúnu Nordal og barnabarni sínu …
Jóhannes Nordal ásamt dóttur sinni Guðrúnu Nordal og barnabarni sínu Ásdísi Nordal Snævarr. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsakar sögu bókbands

Sigurþór Sigurðsson hlaut styrk fyrir verkefni sitt Saga bókbands á Íslandi.

Gerð bókbands á elstu handritum landsins verður tekin fyrir og fjallað verður um bókband frá Hólum, Skálholti, Hrappsey, Leirárgörðum og áfram til okkar tíma. Farið verður yfir þróun bókbands, efnisnotkun og verkfæri. Einnig verður umfjöllun um bókbindara sem störfuðu á þessum tíma.

Í samtali við Morgunblaðið segir Sigurþór að hann hafi fyrir rúmum 30 árum byrjað að viða að sér gögnum. Hann reiknar með að verkefninu ljúki eftir þrjú til fjögur ár en hann segist eiga eftir að fara í nokkrar ferðir út á land og erlendis til að rannsaka sögu bókbands enn frekar.

Fyrrverandi seðlabankastjórarnir Davíð Oddson og Ingimundur Friðriksson ræddu málin.
Fyrrverandi seðlabankastjórarnir Davíð Oddson og Ingimundur Friðriksson ræddu málin. mbl.is/Árni Sæberg

Heiðrar Mugg

Pamela De Sensi, sem fer fyrir félaginu Töfrahurð tónlistarútgáfa, hlaut styrk fyrir verkefnið Dimmalimm - tónlistarævintýri.

Ævintýrið Dimmalimm er eftir listamanninn Mugg. Árið 2024 verða 100 ár frá andláti hans og af því tilefni verður gefin út bók með sögunni og myndskreytingum.

Jafnframt verður frumflutt nýtt tónlistarævintýri sem byggir á sögunni um Dimmalimm. Stefnt er að því verkið verði sýnt um land allt. „Hann var listamaður Íslands. Því vil ég helst ná að kynna verkið út um allt land – ekki bara hér í höfuðborginni,“ segir Pamela í samtali við Morgunblaðið.

Þeir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka …
Þeir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, ávörpuðu gesti. Hér eru þeir ásamt styrktarþegum og Jóhannesi Nordal. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert