Verðlaunaður fyrir frábæran námsárangur

Ísak Valsson tekur við viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur. Hann útskrifaðist …
Ísak Valsson tekur við viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur. Hann útskrifaðist úr hagnýtri stærðfræði með meðaleinkunnina 10,00. Ljósmynd/Aðsend

Ísak Valsson, nýútskrifaður nemandi úr stærðfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Sigurðar Helgasonar prófessors fyrir frábæran námsárangur.

Ísak útskrifaðist úr hagnýttri stærðfræði vorið 2020 með meðaleinkunn 10,00. Er hann sá fyrsti til að útskrifast með þá einkunn í faginu, frá því kennsla hófst árið 2015. Árangurinn verður seint bættur enda fékk Ísak hæstu mögulegu einkunn í öllum áföngum sem hann tók í þremur mismunandi háskólum, Háskóla Íslands, Stanford-háskóla í sumarnámi og Lundarháskóla í Svíþjóð þar sem hann var eina önn í skiptinámi.

Ísak fær að launum styrk upp á 7.000 bandaríkjadali eða sem nemur um 900 þúsund krónum.

Í náminu lagði Ísak mesta áherslu á líkinda- og tölfræði auk tölulegrar greiningar og stefnir hann á framhaldsnám í tölfræði eða líftölfræði. Hann hefur þegar fengið inni í meistaranámi við Oxford-háskóla en bíður einnig eftir svari við umsóknum um doktorsnám í Bandaríkjunum.

Undanfarið ár hefur Ísak starfað við tölfræðideild Íslenskrar erfðagreiningar þar sem hann vinnur við rannsóknir á sambandi steinefna í blóði og sjúkdóma.

Sigurður Helgason styrkir öfluga námsmenn

Verðlaunasjóður Sigurðar Helgasonar var settur á fót árið 2017 í því skyni að styrkja efnilega stærðfræðinema og nýútskrifaða stærðfræðinga til frekara náms og rannsókna.

Stofnandi er doktor Sigurður Helgason, prófessor í stærðfræði við MIT í Boston. Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri en lagði stund á stærðfræðinám í Kaupmannahöfn og hélt síðar til Bandaríkjanna þar sem hann lauk doktorsnámi frá Princeton-háskóla árið 1954.

Sigurður hefur kennt við MIT, Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla en hann varð prófessor við MIT árið 1965. Þá er hann heiðurdoktor frá Háskóla Íslands og heiðursfélagi Íslenska stærðfræðifélagsins.

Sigurður hefur nokkrum sinnum verið á síðum Morgunblaðsins, síðast árið 2017 þegar verðlaunasjóðurinn var stofnsettur, en þar ræddi hann meðal annars helstu viðfangsefni sín innan stærðfræðinnar og langan og viðburðaríkan feril. Hangir úrklippa af viðtalinu á kaffistofu í húsi raunvísindadeildar, alla vega síðast þegar blaðamaður átti leið þar um.

Sigurður var orðinn 88 ára gamall þegar hann hætti formlegri …
Sigurður var orðinn 88 ára gamall þegar hann hætti formlegri kennslu en hann fæst þó enn við rannsóknir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert