Fyrirliði Gróttu til Ítalíu

Tinna Jónsdóttir spilar á Ítalíu.
Tinna Jónsdóttir spilar á Ítalíu. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson

Tinna Jónsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Gróttu í knattspyrnu, er gengin til liðs við ítalska félagið Apulia Trani sem leikur í C-deildinni á Ítalíu.

Hún er lánuð þangað frá Gróttu, rétt eins og samherji hennar á Seltjarnarnesi, Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir, sem gekk til liðs við Apulia Trani á dögunum.

Frá þessu er greint á netmiðlinum Traniviva.it en þar kemur fram að Carlo Uva, varaformaður félagsins, sé í samvinnu við Gróttu um að félögin geti skipst á leikmönnum sem þannig öðlist reynslu í ólíkum löndum og deildum.

Apulia er frá bænum Trani við Adríahafið á suðausturströnd Ítalíu, skammt norðan við Bari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert