Einn látinn eftir íkveikju í fjölbýlishúsi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Einn er látinn og annars er saknað eftir íkveikju í fjölbýlishúsi í Halmstad á Skáni í Svíþjóð á þriðjudagskvöld. Lögreglu var gert viðvart um eldinn klukkan hálftíu að kvöldi en þegar komið var á vettvang logaði glatt í húsinu.

Fyrir utan bygginguna fannst karlmaður sem var alvarlega særður af stungusárum og lést hann eftir komuna á sjúkrahús. 

Sænska ríkissjónvarpið, SVT, hefur eftir vitnum að sést hafi til einhvers koma akandi að húsinu og kasta einhverju í átt að byggingunni. Nokkrum sekúndum síðar heyrðist sprenging og byggingin stóð í ljósum logum.

Sprengjudeild lögreglunnar var kölluð á vettvang og svæði í kringum húsið rýmt. Eftir að hafa yfirfarið svæðið var talið óhætt að opna það á ný og hleypa slökkviliði að húsinu. Um 30 manns búa í húsinu og eru aðrir en sá látni óhultir. Þó er eins íbúa enn saknað og grunur leikur á að hann sé enn í húsinu.

Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn seint á þriðjudagskvöld. Nú undir morgun gaf lögregla það út að hann væri grunaður um morð og að stefna mannslífum í hættu. Maðurinn mun vera búsettur í Halland og hafði áður komið við sögu lögreglu.

Myndband af brunanum má sjá í frétt SVT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert