Nýttu tímann til að bæta sig

Sveindís Jane Jónsdóttir á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á …
Sveindís Jane Jónsdóttir á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á Laugardalsvelli í gær. mbl.is/Hákon Pálsson

Sveindís Jane Jónsdóttir, sóknarmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og Þýskalandsmeistara Wolfsburg, kveðst afar spennt fyrir því að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti með Íslandi þegar EM 2022 á Englandi hefst í næsta mánuði. Íslenska liðið kom saman í gær og hóf undirbúning sinn fyrir mótið, fimmta Evrópumótið sem kvennaliðið tekur þátt í, með æfingu á Laugardalsvelli.

„Það er mjög gaman að vera komin. Ég er eiginlega búin að vera spennt fyrir þessu síðan síðasta landsliðsverkefni kláraðist. Það er alltaf ótrúlega gaman að hitta stelpurnar og æfa með þeim, það er bara geðveikt,“ sagði Sveindís í samtali við Morgunblaðið áður en æfingin hófst í gær.

Frestunin lán í óláni

EM átti upphaflega að fara fram síðasta sumar en var frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins. Sveindís sagði það vissulega leitt að mótinu hefði verið frestað en hún og fleiri leikmenn hefðu einfaldlega nýtt tímann til þess að bæta sig. Því hafi frestunin verið nokkurs konar lán í óláni.

„Já, það var leiðinlegt í fyrra, mann langaði náttúrlega bara að fara á stórmótið og það er leiðinlegt að bíða. En það er bara geggjað núna. Ég er búin að bæta mig og minn leik og það eru örugglega flestar stelpurnar orðnar betri en í fyrra. Þannig að þetta er held ég bara mjög góð tímasetning og liðið er á góðum stað,“ sagði Sveindís.

Tókum okkur stutt frí

Aðspurð sagðist hún telja stöðuna á 23 manna leikmannahópnum ansi góða. „Já, allavega það sem ég hef séð. Við erum bara að hittast í fyrsta skipti síðan í síðasta verkefni og það er alltaf jafn gaman að koma. Það eru allar í fínu standi.“

Viðtalið við Sveindísi má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert