Lýsa hræðilegri viðveru á barnaheimilinu á Hjalteyri

Richardshús á Hjalteyri þar sem rekið var barnahús á árunum …
Richardshús á Hjalteyri þar sem rekið var barnahús á árunum 1972 til 1979. Skapti Hallgrímsson

Á Hjalteyri var rekið barnaheimili í Richardshúsi á árunum 1972 til 1979 og var í umsjá hjónanna Beverly og Einars Gíslason. Í fréttum stöðvar 2 í gærkvöldi voru frásagnir fólks sem dvaldist á heimilinu í æsku af illri meðferð og kynferðisofbeldi sem það sætti og varð vitni að.

Börnin sem dvöldu á heimilinu voru alls áttatíu en þau voru yfirleitt þangað send af barnaverndarnefndum á landinu vegna krefjandi heimilisaðstæðna, veikinda foreldra eða hegðunarvanda.

Lýsa hræðilegu ofbeldi

Jón Hlífar Guðfinnuson segir frá dvöl sinni á Hjalteyri sem stóð yfir í fimm ár. Hann var sendur á heimilið ásamt þremur systkinum sínum, Margrét níu ára, Ágúst fjögurra ára, Jón Hlífar tveggja ára og Steinar sex mánaða, árið 1972 en Barnaverndarnefnd Akureyrar kom þeim þar fyrir eftir að móðir systkinanna hefði verið lögð inn á spítala vegna alvarlegs geðsjúkdóms.

Jón minnist hrikalegs ofbeldis og kynferðisofbeldis af hálfu Einars og vekur athygli á því harðræði sem þrjú elstu systkinin þurftu að búa við þau fimm ár sem þau bjuggu hjá hjónunum. Tvö eldri systkini hans, þau Margrét og Ágúst, létust langt fyrir aldur fram.

Í dagbók sem eldri systir hans, Margrét, hélt úti dagbók þar sem hún lýsir reynslu sinni af dvölinni. 

„Þetta var byrjunin á martröð sem að ég þurfti að fara í gegnum vakandi með öll skynfærin í lagi. Martröð sem átti eftir að standa í fimm ár. Lengstu fimm ár ævi minnar sem ég vil helst geta þurrkað út en get ekki,“ skrifar Margrét í dagbókinni.

Lásu bréf til foreldra og bönnuðu heimsóknir

Jón segir að á kvöldin hafi börnunum verið gefin einhverskonar mixtúra sem hafi í raun verið róandi lyf. Hann segist þá yfirleitt ekki hafa munað neitt eftir að hafa innbyrt mixtúruna og stundum vaknað upp í hjónarúminu.

„Okkur var gefin svona mixtúra á kvöldin. Ég veit ekki hvort það var alltaf eða að allir fengu hana en ég veit að ég fékk hana. Svo man maður yfirleitt ekkert meira. Ég held að maður hafi bara fengið róandi þarna þ.e. börnin ég giska á það. Og besti vinur bróður míns man líka eftir þessu. Það var einhvern veginn bara slökkt á okkur.

Og ég vaknaði stundum upp í hjónarúminu þeirra, þá var ég tekinn og rekinn til fóta og ég hugsaði hvar er ég. Ég man svona atriði,“ segir Jón í fréttatíma Stöðvar 2.

Þá er greint frá því að hjónin lásu yfir öll bréf sem börnin sendu til foreldra eða annarra fjölskyldumeðlima og að ekki var leyfilegt að heimsækja börnin á meðan á vist þeirra stóð.

Ráku einnig leikskóla í Garðabæ

Árið 2003 og árið 2006 opna hjónin Montessori-leikskóla fyrir börn á aldrinum tveggja til sex ára og afhenti Garðabær þeim hentugt húsnæði fyrir starfsemina.

Þau Einar og Beverly ráku skólann til ársins 2008, Einar lést svo árið 2015 og Beverly árið 2019.

Vísir greinir frá því að bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Einarsson, hefur gefið út að starfsemi hjónanna í Garðabæ verði rannsökuð og að bærinn taki frásagnir um ofbeldi mjög alvarlega.

Óskaði eftir því að málið yrði rannsakað

Jón Björnsson varð félagsmálastjóri Akureyrarbæjar eftir að heimilið tók til starfa. Heimilið var með starfsleyfi frá Barnaverndarráði sem þá var og Arnarneshreppi. Foreldrar barna á heimilinu kvörtuðu til Akureyrarbæjar.

Rúv greinir frá því að Jón tilkynnti málið til Barnaverndarráðs og óskaði eftir því að það yrði rannsakað.

„Mér fannst þetta ekki vera tekið alvarlega. Viðbrögðin bentu til að menn vildu sópa þessu undir teppið og láta alla vera góða og sættast eins og þetta væru deilumál sem þetta var ekki. Það fór ekki fram nein rannsókn,“ segir Jón Björnsson í samtali við Rúv.

Jón segist vilja að stjórnvöld láti rannsaka heimilið á Hjalteyri. Hann segir að honum finnist ekki annað sanngjarnt en að heimilið fari núna í sams konar skoðun eins og önnur, þar sem svipað hefur komið upp, hafa sætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert