Bjargvættur skotinn til bana

Lögreglan handtók byssumanninn eftir að vegfarendur náðu að afvopna hann …
Lögreglan handtók byssumanninn eftir að vegfarendur náðu að afvopna hann og halda honum föstum. AFP

Einn maður lést þegar hann reyndi að stöðva byssumann sem ætlaði að skjóta vegfarendur í Washington í Bandaríkjunum í dag. Tveir særðust í árásinni að sögn lögreglu og voru þeir fluttir á slysadeild, en fólkið er ekki í lífshættu. 

Árásin hófst um borð í rútu í borginni og lauk við lestarpall í suðausturhluta borgarinnar. 

Aðrir vegfarendur náðu að afvopna manninn sem var síðan handtekinn. 

Stjórnendur samgöngufyrirtækisins WMATA segjast í sárum vegna andláts starfsmannsins Robert Cunningham sem lést við að koma samborgurum sínum til bjargar við Potomac Avenue-stöðina. 

Cunningham, sem var 64 ára gamall, starfaði sem vélvirki. 

Lögreglan segir að árásarmaðurinn, hinn 31 árs gamli Isaiah Trotman, hafi verið handtekinn og ákærður fyrir morð. Hann hafi enn fremur verið ákærður fyrir mannrán og árás með hættulegu vopni. 

Mikil skelfing

Atvikið átti sér stað um kl. 9 að staðartíma, eða um kl. 14 að íslenskum tíma, í dag. 

Lögreglan segir að Trotman hefði verið vopnaður um borð í rútu og átt þar í samskiptum í aðra farþega þar sem hann sýndi m.a. vopnið. Hann elti síðan annan farþega þegar hann steig út úr rútunni og skaut hann í fótlegginn. Þá gekk inn í lestarstöð þar sem hann skaut annan mann í fótinn. Þegar hann ætlaði niður á lestarpall þá beindi hann byssunni og konu og gerði sig líklega til að ræna hana eða ráðast á hana. Þá hafði Cunningham afskipti af byssumanninum sem skaut hann til bana.

Annar starfsmaður ásamt vegfarendur náðu svo að afvopna byssumanninn og halda honum þar til lögreglu bar að garði. 

„Ég tel að þau hafi bjargað mannslífum og því bera að hrósa, en sú staðreynd að einn af okkar borgurum hafi þurft að skipta sér af byssumanni þykir mér ekki vera í lagi,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónninn Ashan Benedict í samtali við fjölmiðla. 

Fólk sem var þarna á ferðinni þegar árásin átti sér stað segja að mikil skelfing hafi gripið um sig. Einn lestarstjóri slökkti ljós um borð í lestinni og skipaði öllum að leggjast niður. Annar sjónarvottur segir að byssumaðurinn hafi beðið fólk um að fara að öllu með gát í dag þegar hann gekk framhjá fólki. Hann sagðist enn fremur vera „drápsmaðurinn í dag“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert