Fyrsta konan sem prýðir forsíðu leiksins

Candace Parker.
Candace Parker. Skjáskot/youtube.com/WNBA

Leikurinn NBA2K22 er væntanlegur í september þessa árs í fjórum mismunandi útgáfum. NBA2K leikirnir eru tölvuleikir sem snúast um að spila körfubolta. Leikmenn geta valið sér lið og leikmenn sem spila í vinsælu NBA-deildinni í Bandaríkjunum.

Sex leikmenn á forsíðum fjögurra útgáfa

NBA2K22 kemur út þann 10. september næstkomandi, en í ár verða sex atvinnumenn í körfubolta á forsíðu leiksins í þeim fjórum mismunandi útgáfum sem gefnar verða út. Leikinn verður hægt að spila á PlayStation, Xbox, Nintendo Switch og PC-tölvur.

Ásamt því að vera á forsíðu hefðbundinnar útgáfu leiksins, verður Luka Dončić, leikmaður Dallas Mavericks, einnig á forsíðu Cross-Gen Digital Bundle-útgáfu leiksins. NBA2K22 fagnar 75 ára afmæli NBA-deildarinnar með sér afmælisútgáfu þar sem leikmennirnir Kareem Abdul-Jabbar, Dirk Nowitzki og Kevin Durant verða á forsíðunni. 

Á hefðbundu útgáfu leiksins í Japan verður Rui Hachimura, leikmaður Washington Wizards, á forsíðunni, en Hachimura var fyrsti japanski leikmaðurinn til að vera valinn í fyrstu lotu nýliðavals í NBA-deildarinnar.

Fyrsta skipti sem kona verður á forsíðu

Fjórða og síðasta útgáfan er ei síðri, en sú útgáfa verður afmælisútgáfa í tilefni 25 ára afmælis WNBA-deildarinnar, sem er efsta deild kvenna í körfubolta í Bandaríkjunum. Á forsíðu afmælisútgáfu WNBA verður Candace Parker, leikmaður Chicago Sky í WNBA-deildinni. Er þetta í fyrsta skipti í sögu NBA2K-leikjanna sem kona verður á forsíðu leiksins.

Candace Walker segir í viðtali að hún sé stolt að fá að vera á fyrsta konan sem fer á forsíðu NBA2K, og vera hluti af þessum stóra áfanga fyrir kvennakörfuboltann. Hún segir þetta stórt skref í átt að auknum vexti og vinsældum kvennakörfubolta um allan heim.

Candace Parker á forsíðu leiksins.
Candace Parker á forsíðu leiksins. Skjáskot/twitter.com/Candace_Parker

Fær WNBA sinn eigin leik?

Aðdáendur WNBA eru ánægðir með þetta stóra skref og vona að þetta sé byrjunin á einhverju enn umfangsmeira, er þeir halda í vonina um að WNBA-deildin fái sinn eigin leik einn daginn. Hver veit nema það verði næsta skref, en forvitnilegt verður að fylgjast með gangi mála og sölu 25 ára afmælisútgáfu WNBA-deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert