Eldur í ruslahaug og fólk hvatt til að vera inni

Sænskur slökkviliðsbíll.
Sænskur slökkviliðsbíll. Ljósmynd/Wikipedia.org

Eldur kom upp í ruslahaug á endurvinnslustöð í Jordbro suður af Stokkhólmi í Svíþjóð upp úr klukkan hálfátta í morgun að íslenskum tíma. Mikinn reyk leggur frá endurvinnslustöðinni og er fólk hvatt til að halda sig innandyra, loka hurðum, gluggum og loftræstingu.

Aftonbladet hefur eftir Sebastian Levin hjá slökkviliðinu í Södertörn að reykský liggi yfir Jordbro. „Þetta er ruslahaugur sem brennur, meðal annars úrgangur úr byggingariðnaði, plast og fleira. Reykur er aldrei heilsusamlegur og við vitum ekki nákvæmlega hvað er í haugnum,“ sagði Levin.

Viðbragðsaðilar hafa gefið út tilkynningu til almennings. Íbúar nærri endurvinnslustöðinni skulu vera innandyra, loka hurðum, gluggum og loftræstingu.

Um tugur slökkviliðsmanna berst við eldinn. Reiknað er með því búið verði að ráða niðurlögum hans um klukkan tíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert