Við erum vanar roki og rigningu

Eyjakonur fagna eftir að Þóra Björg Stefánsdóttir jafnaði metin fyrir …
Eyjakonur fagna eftir að Þóra Björg Stefánsdóttir jafnaði metin fyrir ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þóra Björg Stefánsdóttir spilaði í sókninni í liði ÍBV í dag þegar að ÍBV tók á móti liði Tindastóls á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í 12. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu.

ÍBV vann leikinn 2:1 eftir að hafa lent 1:0 undir. Fyrir leikinn sat Tindastóll í 8. sæti með 11 stig og ÍBV var í 7. sæti með 13 stig, þannig að ljóst var að þessi leikur væri mikilvægur í fallbaráttunni og mikilvæg þrjú stig í boði.

„Okkur líður vel eftir sigurinn, mjög góður sigur og mikilvægur fyrir okkur svona töflulega séð,“ sagði Þóra og var auðsjáanlega mjög ánægð með niðurstöðu leiksins og frammistöðu sína og sinna liðsfélaga.

Leikurinn var nokkuð jafn svona á heildina litið. ÍBV þó með fleiri marktækifæri og náði að skapa meira.

„Til að byrja með fannst mér leikurinn frekar jafn. Þær voru sterkar í byrjun og við vorum ekki alveg að kveikja strax, en þegar að leið á leikinn fannst mér við vera meira með boltann og líklegri. Duttum kannski dálítið niður eftir markið sem við fengum á okkur en stigum upp þegar að við náðum að jafna. Við vorum líka bara mjög fókuseraðar á það hvað við ætluðum að gera, gáfumst ekki upp þrátt fyrir að lenda undir og vissum bara að við værum að fara að vinna þennan leik.“

Aðstæður á vellinum voru krefjandi, mikil rigning á tímabili og völlurinn mjög blautur.

„Við erum búnar að vera að æfa hérna og vissum hvernig veðrið gæti orðið þannig að við vorum alveg tilbúnar í að þetta yrði svona. Þær eru náttúrlega vanar gervigrasi og við erum vanar roki og rigningu,“ sagði Þóra þegar að hún var spurð hvort aðstæðurnar í dag hefðu haft einhver áhrif á leikinn.

Þóra Björg var að margra mati besti leikmaður vallarins í dag og skoraði hún fyrsta mark ÍBV og var það hennar fjórða mark í sumar. Aðspurð hvort hún hafi sett sér einhver einstaklingsmarkmið þessu tengd fyrir sumarið svaraði Þóra: „Mig langar bara að gera vel. Ég vissi að ég yrði látin spila fram á við þannig að mig langaði að taka þátt í að skapa og skora einhver mörk í sumar.“

Með sigrinum komst ÍBV upp í 5. sæti með 16 stig. Næsti leikur ÍBV er útileikur þann 6. ágúst á móti Valskonum. Valur situr í fyrsta sætinu með 29 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert