Vill ekki „aumingjalegar“ lækkanir á röngum tíma

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri á fundinum í dag.
Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að peningastefnunefnd bankans telji sig hafa náð fullnægjandi aðhaldi og að verðbólga muni komast í ásættanlegt horf innan eins til tveggja ára. Hann segir ekki endilega gott að byrja með „aumingjalegar“ vaxtalækkanir á röngum tíma, en forsætisráðherra hafði meðal annars sagt í gær að aðstæður væru fyrir stýrivaxtalækkun í dag.

Peningastefnunefnd bankans ákvað í dag að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 9,25% þótt að verðbólga hafi verið að lækka á undanförnum mánuðum. Stendur verðbólgan nú í 6%. Í framsýnni leiðsögn bankans í yfirlýsingu sinni er þó vísað til þess að nægu aðhaldi hafi verið náð til að stemma stigum við verðbólgunni.

Telja sig hafa náð fullnægjandi aðhaldi

„Peningastefnunefnd telur auknar líkur á því að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í yfirlýsingunni.

Á kynningarfundi vegna ákvörðunar peningastefnunefndar var Ásgeir spurður út í þessi orð og hvort túlka mætti þau sem mildari en í síðustu yfirlýsingum nefndarinnar. Sagði hann svo vera. „Já, ég held að það sé alveg rétt til getið að þessi setning beri vitni um það að peningastefnunefnd telji sig hafa náð fullnægjandi aðhaldi, sérstaklega ef miðað er við raunvexti sem núna eru eitthvað í kringum 4%, sem er náttúrulega nokkuð mikið aðhald. Nefndin telur að þetta aðhald sé alveg nægjanlegt til að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma, sem er svona eitt til tvö ár,“ sagði Ásgeir.

Einn þáttur ekki að ganga upp

Bætti Ásgeir við á fundinum að allt væri að ganga upp með peningastefnuna og hagmálin, nema einn þáttur og það væru verðbólguvæntingar. Sagði hann að það gæti þýtt að verðbólgan yrði treg niður. Sagði hann ákvörðunina núna að halda óbreyttum vöxtum stafaði meðal annars af verðbólguspá bankans þar sem ekki væri gert ráð fyrir að hún myndi gefa mikið eftir í sumar. Sagði hann ákvörðunina núna því helgast af því að verðbólgan núna væri mjög þrálát og gengi hægt niður og vegna hárra verðbólguvæntinga.

Varaði Ásgeir við því að ef verðbólga hér héldist há meðan hún færi lækkandi í öðrum löndum gæti það boðið upp á margskonar annan vanda, meðal annars vanda vegna raungengis og gjaldeyrisviðskipta. Sagði hann miklu máli skipta að lenda þessu rétt og að það hefði verið hörð rimma að hafa hemil á heitu hagkerfi og gríðarlegum hagvexti undanfarið.

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri, Rann­veig Sig­urðardótt­ir vara­seðlabanka­stjóri pen­inga­stefnu og Þór­ar­inn G. …
Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri, Rann­veig Sig­urðardótt­ir vara­seðlabanka­stjóri pen­inga­stefnu og Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, aðal­hag­fræðing­ur Seðlabankans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hætta á að verðbólgan verði treg undir 4 eða 5%

Réttur tímapunktur til lækkunar markast af því hvernig hlutirnir leggjast upp að sögn Ásgeirs. Sagði hann ákveðna hættu á að verðbólgan yrði treg að fara undir 4 eða 5% og það skapaði hættu á að kjarasamningar myndu losna upp aftur.

Ásgeir sagði nefnina þurfa að taka afstöðu hversu mikið vægi eigi að leggja á að ná verðbólgu hratt niður og hversu mikla áherslu eigi að leggja á framleiðslu og hagvöxt. Sagði hann að ef núverandi spá bankans gengi eftir mynd framleiðsluspenna í hagkerfinu ganga frekar hratt niður og það myndi búa til jarðveg til þess að lækka vexti. „Við þurfum að ná vonandi mjúkri lendingu, en líka að ná verðbólgu niður á ásættanlegum tíma.“

Hækkaði hratt, en getur líkað lækkað vexti hratt

Þegar Ásgeir var spurður nánar um tímaramma á mögulegum lækkunum sagði hann að nefndin gæti allt eins farið hratt í lækkun líkt og hún fór hratt í hækkun.  „Nefndin hækkaði vexti hratt, en hún getur alveg líka lækkað vexti hratt, eftir því hvernig við náum að lenda þessu. Mögulega er það betra að vera ekki að byrja með aumingjalegar vaxtalækkanir á röngum tíma,“ sagði hann og bætti við að

Að lokum ítrekaði Ásgeir að helsti vandi Seðlabankans væru verðbólguvæntingar sem væru ekki að lækka. Sagði hann margar ástæður geta verið þar að baki, meðal annars trúverðugleiki bankans. Sagði hann stefnu bankans ekki trúverðuga ef bankanum væri að blæða og brenna eigið fé og vísaði þar til aðgerða hans í síðasta mánuði um að hækka bindiskyldu viðskiptabankanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert