Smitum fækkaði um 70% eftir fyrsta skammt

Heilbrigðisstarfsmaður heldur á bóluefninu Comirnaty sem Pfizer og BioNTech standa …
Heilbrigðisstarfsmaður heldur á bóluefninu Comirnaty sem Pfizer og BioNTech standa að. AFP

Kórónuveirusmitum fækkaði um 70% á meðal heilbrigðisstarfsmanna í Englandi eftir að þeir fengu einn skammt af bóluefni Pfizer/BioNTech, að sögn breskra heilbrigðisyfirvalda. Almennt er fólk sprautað með tveimur skömmtum af bóluefninu til þess að öðlast vernd gegn Covid-19. 

Reuters greinir frá

Gögn sem Enska heilbrigðisstofnunin (PHE) rýndi í sýna að einn skammtur af bóluefni Pfizer gegn Covid-19 veitir mikla vernd gegn smiti og alvarlegum veikindum. Þá telur stofnunin að með því að bólusetja eldri borgara sé með einum skammti af bóluefni Pfizer/BioNTech mögulegt að fækka dauðsföllum og sjúkrahúsinnlögnum um 75%.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður um málið á upplýsingafundi í …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður um málið á upplýsingafundi í dag. Ljósmynd/Almannavarnir

Ástæðulaust fyrir Íslendinga að breyta sinni áætlun

Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur Guðnason ekki útlit fyrir að lengri tími en þrjár vikur yrðu látnar líða á milli bóluefnaskammta frá Pfizer/BioNTech hérlendis. 

„Nýjar rannsóknir hafa sýnt að fyrsti skammturinn af bóluefninu gefi ágætisvörn. Ég held að þetta skipti verulegu máli í löndum þar sem er mikil útbreiðsla á faraldrinum. Ég er ekki viss um að þetta skipti svo miklu máli hjá okkur,“ sagði Þórólfur og bætti við:

„Skammtur tvö gefur betri vörn og sennilega betri langtímavörn þótt við vitum það ekki alveg fyrir víst núna. Ég held að það sé ástæðulaust fyrir okkur að breyta út af nema eitthvað breytist hér innanlands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert