Þurfti að gæta æskuvinarins á vellinum

Frá leik liðanna í kvöld.
Frá leik liðanna í kvöld. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Dagur Austmann Hilmarsson glímdi við æskuvin á knattspyrnuvellinum í kvöld þegar hann mætti uppeldisfélagi sínu Stjörnunni en Dagur er á sínu öðru tímabili hjá Leikni. 

Dagur og liðsfélagar hans í vörninni hjá Leikni héldu markinu hreinu en leiknum lauk 0:0. 

„Þetta var ógeðslega gaman. Mér finnst mjög gaman að spila hérna og sérstaklega á móti þessum strákum. Eins og til dæmis Krissa Konn [Kristófer Konráðssyni]. Það var mjög gaman að mæta honum,“ sagði Dagur þegar mbl.is ræddi við hann en Dagur var vinstri bakvörður og Kristófer á hægri kantinum hjá Stjörnunni. Dagur þurfti því að gæta æskuvinarins í leiknum. 

„Við erum bestu vinir. Það var geggjað að spila á móti honum. En það er erfitt að halda honum niðri því hann er góður leikmaður. Fyrst við héldum hreinu þá hlýt ég að hafa skilað mínú hlutverki,“ sagði Dagur en íþróttaheimurinn á Íslandi er lítill og feður þeirra, Hilmar Hjaltason og Konráð Olavsson, léku saman í yngri landsliðum í handknattleik. 

Dagur tók undir að það sé jákvætt fyrir nýliða að halda hreinu í fyrsta leik á útivelli. „Já það er mjög jákvætt. Við erum sáttir við stigið og virðum það. Þetta var góður dagur hjá okkur í vörninni þar sem við héldum hreinu í fyrsta leik á útivelli,“ sagði Dagur sem er einn þeirra leikmanna í Leikni sem leikið hafa í efstu deild og gerði það með ÍBV. Nýliðarnir hafa beðið spenntir eftir því að mótið byrjaði og taugaspennan var til staðar í upphafi leiks.

„Ég held að það hafi sést á okkur í þessum leik að við vorum stressaðir í byrjun leiks. Það er örugglega bara eðlilegt. Við erum ekki margir í liðinu sem höfum leikið í efstu deild,“ sagði Dagur enn fremur í samtali við mbl.is en tvíburabróðir hans Máni Austmann Hilmarsson er einnig í leikmannahópi Leiknis en er enn í Bandaríkjunum þar sem hann er í háskólanámi. 

Dagur Austmann Hilmarsson.
Dagur Austmann Hilmarsson. mbl.is/Íris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert