Tákn vonar sem nær til allrar heimsbyggðarinnar

Tedros Adhanom Ghebreyesus tekur við ólympíukyndlinum úr hendi Thomas Bach, …
Tedros Adhanom Ghebreyesus tekur við ólympíukyndlinum úr hendi Thomas Bach, forseta Alþjóða ólympíunefndarinnar á fundinum í Tókýó. AFP

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, segir að Ólympíuleikarnir sem settir eru formlega í Tókýó í dag geti reynst hvatning til þjóða heims í harðri baráttu við vágestinn kórónuveiruna.

Ghebreyesus ávarpaði þing Alþjóða ólympíunefndarinnar í Tókýó á miðvikudaginn og óskaði þess þar að leikarnir myndu sameina þjóðir heims og kynda undir þeirri samstöðu sem nauðsynleg væri til að binda endi á heimsfaraldurinn.

Hann lýsti yfir mikilli ánægju með þær sóttvarnaráðstafanir sem gerðar hefðu verið fyrir leikana í Tókýó.

„Lífið er aldrei án áhættu, þetta er bara spurning um hvort hún sé meiri eða minni. Þið hafið gert ykkar besta og leikarnir verða ekki metnir af því hversu mörg kórónuveirusmitin verða. Nokkur hafa þegar verið greind. Vel heppnaðir leikar snúast um að öll smit séu greind, rakin, einangruð og hlúð að viðkomandi eins hratt og vel og mögulegt er, og frekari útbreiðsla sé hindruð. Það er sá árangur sem öll lönd stefna að," sagði Ghebreyesus m.a. á þinginu.
 
„Ólympíuleikarnir sameina þjóðir heims í keppni og íþróttafólkið reynir að uppfylla einkunnarorð þeirra um að komast hærra, hraðar og lengra - með sameiginlegu átaki. Þetta á líka við um mestu áskorun okkar  tíma. Við þurfum að vera fljótari að dreifa bóluefni um allan heim, við eigum að setja markið hærra og ná að bólusetja 70 prósent af hverri einustu þjóð fyrir mitt næsta ár, við verðum að vera sterkari í þeirri baráttu að fjarlægja þær hindranir sem eru í veginum, og þetta verðum við að gera allt í sameiningu - með samstöðu," sagði framkvæmdastjórinn ennfremur.

„Megi ólympíukyndillinn vera tákn vonar sem nær til allrar heimsbyggðarinnar og megi geislar vonarinnar frá landi hinnar rísandi sólar lýsa upp nýja dögun sem er heilbrigðari, öruggari og sanngjarnari," sagði Ghebreyesus og lyfti ólympíukyndlinum í lok ræðu sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert