Mikael seldur frá Spezia til Feneyja

Mikael Egill Elleretsson með treyju Venezia í dag.
Mikael Egill Elleretsson með treyju Venezia í dag. Ljósmynd/Venezia

Ítalska knattspyrnufélagið Venezia frá Feneyjum gekk í dag frá kaupum á íslenska landsliðsmanninum Mikael Agli Ellertssyni frá Spezia og samið við hann til sumarsins 2027.

Mikael, sem er tvítugur framherji, fór frá Fram til ítalska félagsins SPAL árið 2018 og lék með unglingaliðinu þar, síðan aðalliðinu, og var keyptur af Spezia árið 2021 en lánaður aftur til SPAL.

Mikael hefur leikið með Spezia í A-deildinni í vetur og spilað þar 11 leiki ásamt tveimur bikarleikjum.

Venezia féll úr A-deildinni síðasta vor og er í fallbaráttu í B-deildinni. Þrír aðrir Íslendingar eru á mála hjá félaginu, Óttar Magnús Karlsson, Bjarki Steinn Bjarkason og Kristófer Jónsson, auk þess sem félagið lánaði á dögunum Hilmi Rafn Mikaelsson til Tromsö í Noregi.

Mikael Egill hefur spilað 10 A-landsleiki á undanförnum tveimur árm og lék áður 27 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert