Heimavinnan breytti ekki verkaskiptingu

mbl.is/Jim Smart

Ný könnun Hagstofunnar leiðir í ljós að meirihluti aðspurðra telur að álag vegna heimilisstarfa sé svipað og það var áður en kórónuveirufaraldurinn hófst snemma á síðasta ári. Um 15% beggja kynja telja álagið hafa aukist. Hins vegar reynist töluverður munur á svörum eftir því hvort börn eru á heimilinu eða ekki; í ljós kom að álagið hafði aukist hjá fjórðungi barnaheimila.

Áhrif á heimili með börn

Samkvæmt könnuninni virðist vinna heiman frá í faraldrinum ekki hafa haft teljandi áhrif á verkaskiptingu kynjanna á heimilum. Sögðu 83% einstaklinga með börn og 89% einstaklinga á heimilum án barna verkaskiptinguna vera svipaða nú og áður. Þó virðist sem frekar hafi orðið vart breytinga á verkaskiptingu á heimilum með börn en barnlausum þar sem 9% einstaklinga með börn sögðu hana vera jafnari nú en áður, á móti 6% einstaklinga á barnlausum heimilum, og 7% svarenda með börn sögðu hana ójafnari nú en áður á móti 4% barnlausra.

Könnun sýnir að konur verja að meðaltali 9,2 klukkustundum á viku í heimilisstörf og karlar 7,1. Þeir sem búa einir verja minni tíma í heimilisstörf en fólk í sambúð og fólk í sambúð með börn á heimilinu ver meiri tíma en sambúðarfólk án barna. Slíkir þættir hafa þó nokkuð meiri áhrif á konur en karla, t.d. verja konur í sambúð með börn 2,8 klukkutímum meira í heimilisstörf en konur í sambúð án barna, en munurinn á milli karla í sömu stöðum er 2,4 klukkustundir. Þá kemur í ljós að fólk á landsbyggðinni ver meiri tíma í heimilisstörf en fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Karlar sáttari

Þegar spurt var um afstöðu til verkaskiptingar á heimilum sögðust um 55% aðspurðra telja sig gera u.þ.b. sinn hluta og er ekki munur á þessu hlutfalli eftir búsetu. Hins vegar, þegar litið er til kyns, eru karlar umtalsvert líklegri til þess að vera sáttir við sitt framlag eða 62% á móti 49% kvenna. Konur eru á móti líklegri til þess að telja sig gera meira en þeim ber því 46% kvenna segjast gera meira en sinn hluta en 9% karla. Auk þess finnst næstum þriðjungi karla, eða 29%, þeir gera minna en þeim ber en aðeins 6% kvenna.

Graf/mbl.is

Hagstofan bendir á það í greinargerð með könnuninni að gera verði greinarmun á sanngirni verkaskiptingar og jöfnuði enda geti verkaskipting til dæmis verið á þann hátt að annar aðilinn sjái alfarið um heimilið á meðan hinn sinnir engum heimilisverkum og báðum aðilum fundist það sanngjarnt.

8-10 stundir í umönnun

Fram kemur að konur verja um 10 klukkustundum á viku að meðaltali í umönnun barna og annarra á heimilinu, en karlar tæpum átta klukkustundum. Bent er á að þetta meðaltal segi þó afar takmarkaða sögu, eins og sjáist þegar fólk með börn á heimilinu er borið saman við fólk á barnlausum heimilum. Konur og karlar með börn á heimilinu verja 22 og 17 klukkustundum í umönnun á viku á móti ríflega tveimur klukkustundum hjá fólki af báðum kynjum sem ekki er með börn. Þegar tíminn sem fólk ver í umönnun er skoðaður eftir búsetu sést að barnlaus pör verja samtals tæpum sex klukkutímum á viku í umönnun hvort sem þau búa innan eða utan höfuðborgarsvæðisins.

„Hins vegar munar tæpum þremur klukkustundum á tíma sem varið er í umönnun á heimilum með börn, eftir búsetu, þar sem samtala para með börn á landsbyggðinni er ríflega 46 klukkustundir en para með börn á höfuðborgarsvæðinu tæpir 44 klukkutímar,“ segir Hagstofan.

Víðtæk áhrif faraldurs

„Kórónuveirufaraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á samfélagið á öllum sviðum þess og áhrif hans verið ólík á mismunandi hópa fólks. Aukin heimavera sem fylgir fjarvinnunni, og skertu skóla- og frístundastarfi, vakti spurningar um kynjuð áhrif af faraldrinum á heimilin og er niðurstöðum ætlað að varpa ljósi á þau áhrif,“ segir Hagstofan í greinargerð um könnunina.

Um var að ræða átta viðbótarspurningar sem bætt var við árlega lífskjararannsókn Hagstofunnar. Var verkið unnið í samráði við forsætisráðuneytið. Úrtakið telur ríflega 5.000 einstaklinga úr þjóðskrá í heild en aðeins hluti þeirra kemur nýr á hverju ári þar eð heimilum er fylgt eftir í fjögur ár. Einstaklingar svara ýmsum spurningum um sig og sitt heimili auk þess sem notuð eru ýmis skráargögn Hagstofunnar til þess að létta svarbyrði. Heildarsvör á hverju ári eru rétt rúmlega 3.000. Rétt er að taka fram að tölurnar um heimilisstörf í faraldrinum eru bráðabirgðaúrvinnsla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert