Ekki mín ákvörðun ef félagið vill skipta um þjálfara

Sigurður Ragnar Eyjólfsson á hliðarlínunni í kvöld.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var hreinskilinn í viðtali við mbl.is eftir 1:4-tap liðsins gegn Fram í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Keflavík var í botnsæti deildarinnar fyrir leikinn, aðeins með einn sigur, og þriggja marka tap í fallslag gerði lítið til að bæta stöðu Keflvíkinga.

„Við fengum mark á okkur á mjög slæmum tíma, í lok fyrri hálfleiks, og við fórum fúlir inn í klefa. Við eigum að gera betur. Við lendum svo tveimur mörkum undir, gerum þrefalda skiptingu og náum að koma til baka með marki og eftir það sóttum við á þá og þrýstum á þá.

Svo fáum við þriðja markið á okkur eins og blauta tusku í andlitið. Það var skalli eftir horn. Það gerist ekki einfaldara en að dekka manninn sinn, bera ábyrgð á honum og fara upp í skallabolta. Þetta var frír skalli. Eftir það opnuðum við okkur mikið og tókum sénsa. Þá kom ódýrt fjórða mark. Heilt yfir vorum við ekki nógu góðir og menn virkuðu þreyttir. Það voru of margir frá sínu besta,“ sagði Sigurður um leikinn og hélt áfram:

Frans Elvarsson, fyrirliði Keflavíkur, með boltann í kvöld.
Frans Elvarsson, fyrirliði Keflavíkur, með boltann í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Auðvitað eru menn svekktir þegar við töpum stórt. Ég sagði við þá að það skipti ekki máli hvort við töpum 1:0 eða 2:0 ef við þorum að spila, þorum að spila boltanum og þorum að keyra á þá. Mér fannst við ekki þora nóg í fyrri hálfleik. Maður fékk einhver viðbrögð í seinni hálfleik og ferskir fætur sköpuðu hættu. Þeir gerðu svo út um leikinn með þriðja markinu,“ sagði hann.

Keflavík hefur hefur aðeins skorað sex mörk í deildinni á leiktíðinni í tíu leikjum og því augljóst að það má bæta margt í sóknarleik liðsins.  

„Það vantar gæði fram á við. Við höfum ekki skorað mikið af mörkum, bara fimm fyrir þennan leik. Það er ekki nógu gott. Okkur vantar mikið þegar Sami Kamel og Dagur Ingi Valsson eru ekki með. Maggi fyrirliði ógnar svo í föstum leikatriðum og Nacho hefur verið að skora undanfarin ár. Það vantar gæði hjá okkur. Vonandi endurheimtum við eitthvað af þessum mönnum,“ sagði hann.

Sigurður viðurkenndi að hann hefur áhyggjur af stöðu mála, en liðið með einn sigur í tíu leikjum og fjórum stigum frá öruggu sæti.

„Auðvitað. Allir sem líta á stöðutöfluna og sjá liðið sitt í neðsta sæti hafa áhyggjur. Sérstaklega þegar við erum að missa Ásgeir Pál og Guðjón í háskóla í Bandaríkjunum. Við þurfum nauðsynlega að fá menn inn til að styrkja okkur.“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson á hliðarlínunni í kvöld.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

En hvað með hans eigin framtíð? Óttast hann að Keflavík leiti til annars þjálfara?

„Ég hef allan tímann verið með ótímabundinn samning hjá Keflavík, með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Það er ekki mín ákvörðun ef félagið vill skipta um þjálfara á einhverjum tímapunkti.

Þegar ég var með Kína unnum við fimm af sex síðustu leikjunum áður en ég var rekinn. Núna gengur liðinu illa og maður skilur ef félagið vill skipta um þjálfara. Það verður þá þeirra ákvörðun. Ég er ekki búinn að gefast upp,“ sagði Sigurður Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert