Færeyingar aflétta öllu fyrir lok febrúar

Færeyingar feta í fótspor Íra, sem afléttu nær öllum sóttvarnatakmörknum …
Færeyingar feta í fótspor Íra, sem afléttu nær öllum sóttvarnatakmörknum í dag, með ákvörðuninni. mbl.is

Færeyingar munu aflétta öllum takmörkunum og reglum vegna kórónuveirunnar innanlands í lok febrúar. Þetta tilkynnti Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, á blaðamannafundi í gær. 

Ákvörðunin er tekin vegna þess hve lítil áhrif faraldurinn er farinn að hafa á sjúkrahús og aðra veigamikla innviði samfélagsins.

533 smit greindust í Færeyjum á fimmtudag.

Rétt rúmlega 50 þúsund manns búa á eyjunum, svo að smitfjöldinn jafngildir tæplega fjögur þúsund smitum á einum degi á Íslandi, ef miðað er við um 370 þúsund manna íbúafjölda hér á landi. 

Hefur faraldurinn verið á mikilli uppleið þar í landi eins og hér, það er hvað fjölda smita varðar.

100 eða fleiri mega koma saman frá og með deginum í dag

Frá og með gærdeginum verða takmarkanir á fjöldasamkomum almennt miðaðar við hundrað manns nema ef aðstæður leyfa fleiri. 

Þann fyrsta febrúar verður veitinga- og skemmtistöðum síðan leyft að opna á ný og afgreiðslutími þeirra færður í hefðbundið horf. Samhliða því verður reglum um sóttkví breytt og smitrakning lögð niður. 

Fimmtánda febrúar verður hætt að skikka fólk í sóttkví nema það hafi greinst smitað og þann 28. febrúar verður öllum takmörkunum aflétt.

Þýðingarmikið að fólk viti

Í viðtali við Kringvarpið segist Bárður vita að sumir muni segja skrefið nokkuð djarft en kveðst vita að staðan geti breyst fljótt.

„En ég held að það sé þýðingarmikið að fólk viti að við ætlum að snúa aftur til venjulegs hversdagsleika,“ er haft eftir Bárði í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert