Gígja í 76. sæti – Önnur gullverðlaun Johaug

Therese Johaug vann yfirburðasigur í 10 km göngu kvenna.
Therese Johaug vann yfirburðasigur í 10 km göngu kvenna. AFP

Gígja Björnsdóttir hafnaði í 76. sæti í 10 km skíðagöngu kvenna á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum sem fram fer í Oberstdorf í Þýskalandi í dag.

Gígja var með rásnúmer 85 í dag og kom í mark á tímanum 30:15,2 mínútur sem skilaði henni 76. sæti af 88 keppendum.

Norðmaðurinn Therese Johaug vann öruggan sigur í greininni, kom í mark á tímanum 23:09,8 mínútum og var tæplega mínútu á undan hinni sænsku Fridu Karlsson sem kom í mark á tímanum 24:04,0 mínútum.

Johaug, sem er 32 ára gömul, hefur haft mikla yfirburði í greininni undanfarin ár en hún vann til gullverðlauna í 10 km göngu á síðasta heimsmeistaramóti í Tyrol, ásamt því að vinna 15 km gönguna og 30 km gönguna.

Þetta eru önnur gullverðlaun Johaug á mótinu í ár en hún vann til gullverðlauna í 15 km göngu um síðustu helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert